
Meng Wanzhou, dóttir stofnanda kínverska risafyrirtækisins Huawei, var handtekin í Vancouver í Kanada laugardaginn 1. desember og verður að líkindum framseld til Bandaríkjanna að sögn kanadíska dómsmálaráðuneytisins. Fyrirtækið er sakað um að brjóta gegn viðskiptabanni Bandaríkjamanna á Íran.
Kínversk stjórnvöld mótmæltu því harðlega fimmtudaginn 6. desember að Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei, hefði verið handtekin. Krafa Bandaríkjastjórnar um framsal hennar frá Kanada verður tekin fyrir af dómara föstudaginn 7. desember.
Í yfirlýsingu frá Huawei segir að Meng, varaformaður stjórnar fyrirtækisins og dóttir stofnana þess, Rens Zhengfeis, hafi verið tekin föst þegar hún skipti um flug í Kanada. Þess væri krafist að hún svaraði fyrir „ótilgreindar sakir“ í New York. Fyrirtækið sagði að hvarvetna þar sem það starfaði færi það að gildandi lögum og reglum.
Í The Wall Street Journal var skýrt frá því í apríl 2018 að bandarísk yfirvöld rannsökuðu hvort kínverska hátæknifyrirtækið bryti gegn viðskiptabanni við Íran.
Kínverska utanríkisráðuneytið hvatti stjórnvöld í Kanada og Bandaríkjunum til að skýra“ ástæðuna fyrir handtöku Meng.
Huawei er er eitt stærsta fyrirtækið í heimi sem bæði framleiðir og selur síma- og fjarskiptatæki fyrir utan að veita þjónustu til að nýta tækin. Á öðrum ársfjórðungi 2018 seldi Huawei fleiri snjallsíma en Apple, Samsung hefur enn vinninginn á þessum sístækkandi markaði.
Þeir sem greina og leggja mat á þjóðaröryggi Bandaríkjanna segja að hætta fylgi viðskiptum við Huawei vegna meintra náinna tengsla fyrirtækisins við kínversk stjórnvöld. Í Bandaríkjunum hefur verið lögð rík áhersla á að setja umsvifum fyrirtækisins skorður af ótta við að snjallsímar þess kunni að vera nýttir til njósna í þágu valdhafa í Peking.
Örflöguátök
Hátæknistríð er háð milli Bandaríkjamanna og Kínverja eins og sjá má af þessari grein eftir Kristin Valdimarsson sem reist er á því sem The Economist hafði nýlega um málið að segja:
Eitt sinn snerist þjóðaröryggi um hversu öflug vopn og fjölmenna heri ríki ætti. Þessir þættir skipta enn þá máli en ef nefna ætti lykilatriði í vörnum Vesturlanda í dag þá myndu margir nefna örlítið stykki – örflöguna. Blikur eru á lofti á örflögumarkaði heimsins og fjallað er um það í nýjasta hefti tímaritsins The Economist.
Örflögur eru ekki nýjar af nálinni. Fyrstu örflögurnar voru hannaðar í lok sjötta áratugarins af Bandaríkjamönnunum Jack Kilby og Robert Noyce. í fyrstu voru þær aðallega notaðar til þess að keyra tölvur áfram en eftir því sem veröldin hefur orðið tæknivæddri hafa þær verið nýttar á fleiri sviðum. Í dag eru t.d. örflögur í bílum, ýmsum heimilistækjum og jafnvel fiskabúrum. Auk þess eru öll hátæknivopn samtímans keyrð áfram af örflögum.
Bandaríkin voru fyrsta ríkið sem framleiddi örflögur og enn í dag eru þau stórveldi á þessu sviði þó nokkur önnur ríki, m.a. Japan, Suður – Kórea og Taívan, hafi umtalsverða markaðshlutdeild. Fyrrnefnd ríki eru bandamenn Bandaríkjanna. Hið sama er ekki hægt að segja um Kína sem hóf nýlega framleiðslu örflaga og hefur að undanförnu verið að auka og bæta framleiðslu sína. Þannig setti Kínastjórn á laggirnar árið 2014 sjóð sem kallast á ensku “National Integrated Circuit Industry Investment Fund” sem ætlað er að efla fjárfestingu á þessu sviði. Kínverjar hafa líka hrundið af stað átaki sem á að efla hátækniiðnað í landinu er nefnist “Kínversk framleiðsla 2025” (e. “Made in China 2025”) en það gerir ráð fyrir að tekjur örflöguiðnaðarins þar í landi aukist verulega á næstu árum
Bandaríkjamenn hafa lengi áttað sig á að mikilvægt væri fyrir þjóðaröryggi þeirra að halda forskoti í örflöguþróun. Þetta má m.a. sjá af því að bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur lengi stutt við þróun Kísildalsins utan við San Francisco sem er hjarta rafeindaframleiðslu í landinu. Þeir eru því ekki hrifnir af auknum umsvifum Kínverja á örflögumarkaðinum og eru stjórnvöld farin að velta því fyrir sér hvernig best sé að koma í veg fyrir að Kína verði ráðandi á honum.
Ein leið er að hindra sölu á tækni til Kína. Bandaríkjastjórn kom m.a. í veg fyrir að tæknifyrirtækið Intel gæti selt hátækniörflögur til landsins árið 2015 og hún hefur hindrað kaup Kínverja á bandarískum flögufyrirtækjum. Annað sem gera má er að reyna að hafa áhrif á framleiðsluferli örflaga þ.e. að reyna að sjá til þess að bandarískar örflögur séu aðeins framleiddar þar í landi. Þetta verður ekki auðvelt verkefni því lengi vel þótti hnattvæðing í tæknigeiranum af hinu góða og því er svo komið að íhlutir í örflögur eru framleiddir víðs vegar um heim. Sú var tíð að Kínverjar tengdust aðeins þeim hluta framleiðsluferlisins sem snéri að samsetningu og pökkun á kísilflögum en að undanförnu hafa þeir einnig tekið til við framleiðslu og hönnun á flögunum. Þeir eru þó enn þá talsvert á eftir Bandaríkjunum í þessum efnum og nú kann að hafa skapast tækifæri fyrir þá að auka forskot sitt á þessu sviði. Þetta kemur til af því að lögmál Moore, sem kveður á um að vinnslugeta örflaga tvöfaldist á um átján mánuðum, og hefur verið í gildi svo áratugum skiptir virðist við það að falla úr gildi. Þetta gerir það að verkum að hátækniörflöguverksmiðjur eru orðnar afar dýrar og nú er svo komið að aðeins fimm fyrirtæki í heiminum bjóða upp á slíkar verksmiðjur. Þær eru í Bandaríkjunum og tveimur vinveittum ríkjum, Taívan og Suður – Kóreu, nokkuð sem ætti að gera Bandaríkjastjórn auðveldara fyrir að koma í veg fyrir að Kínverjar verði sér úti um hátækni á þessu sviði. Kínverjar þurfa þó ekki að örvænta því þegar lögmál Moore veikist munu flögufyrirtæki einbeita sér meira að nýrri hönnun á örflögum og velta fyrir sér nýjum tæknihugmyndum. Á þessum sviðum kunna Kínverjar að vera samkeppnishæfir við önnur lönd. Þriðja leiðin sem Bandaríkjamenn geta farið til þess að auka forskot sitt í örflögutækni er að efla þróunarvinnu í þessum geira. Ýmis bandarísk fyrirtæki s.s. Google, Microsoft og IBM hafa brugðist við aukinni samkeppni með því að þróa skammtatölvur (e. “quantum computing”) og rannsóknarstofnun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna (DARPA) er að skoða nýjar leiðir í örflöguframleiðslu. Endurbættar hátækniflögur kunna að vera besta vopn Bandaríkjanna í baráttu þeirra við Kínverja auk þess sem leiðin er ekki jafn umdeild og hinar aðferðirnar.