Home / Fréttir / Huawei-máliðFæreysk klípa er dönsk valþröng

Huawei-máliðFæreysk klípa er dönsk valþröng

ca-times-brightspotcdn-com

Hér var sagt frá því að Telenor, stóra símafyrirtækið í Noregi, hefði ákveðið að eiga ekki viðskipti við kínverska fyrirtækið Huawei um 5G netkerfið. Í leiðara Jyllands-Posten var sunnudaginn 15. nóvember fjallað um vanda færeysku landstjórnarinnar vegna Huawei. Þar sagði í lauslegri þýðingu:

Það lítur ekki vel út þegar sendiherra Kína í Kaupmannahöfn setur þumalskrúfur á lögmann Færeyja og virðist vilja láta hann skilja að annaðhvort fái Huawei sess sem seljandi 5G-netkerfisins á Færeyjum eða Færeyingar geti sagt skilið við viðskiptasamninginn sem þeir hafa lagt hart að sér að ná.

Ekki hefur verið sagt frá því hvernig orð féllu milli sendiherrans Fengs Ties og Bardurs a Steig Nielsens á fundi þeirra 11. nóvember. Það heyrist í ráðuneytisstjóra lögmannsins á hljóðupptöku og samkvæmt frásögnum af því sem hann segir má ráða að hann hafi skilið samtalið þannig að skrifuðu Færeyingar undir samning við Huawei yrði leiðin greið til fríverslunarsamningsins. Gerðu menn það hins vegar ekki yrði ekki um neinn fríverslunarsamning. að ræða.

Bæði lögmaðurinn og sendiherrann bera til baka að Kínverjar hafi hótað einhverju í samtalinu 11. nóvember en augljóst er að báðir hafa hag af því að fullyrða þetta. Hvað sem öðru líður er ekkert óvenjulegt við að sendiherra reyni að gæta hagsmuna lands síns – þar á meðal viðskiptalegra. Óvenjulegt er að þetta snúist um Kína og að Kínverjar líti á Færeyjar sem þægilega stiklu á leið sinni inn á norðurskautið.

Hluti þessarar sögu er að sendiherra Bandaríkjanna, Carla Sands, hefur af ákafa lagt sig fram um að sannfæra Færeyinga um að hætta alveg að hugsa um Huawei. Á Twitter hefur hún haft í hótunum um að sigli sinn sjó undir kínverskum yfirráðum.

Við þær þröngu aðstæður sem nú hafa skapast er ekki auðvelt að vera í stöðu Færeyinga, þeir njóta annars vegar öryggis sem NATO veitir og vilja hins vegar gjarnan komast inn á kínverskan markað. Færeyingar eru ekki í ESB og eftir makrílstríðið hafa þeir markvisst unnið að því að draga úr útflutningi til ESB og lagt þess í stað rækt við aðra markaði.

Staða dönsku ríkisstjórnarinnar er ekki heldur auðveld, hún stendur frammi fyrir erfiðum kostum. Það yrði óheppilegur blær á því ef stjórnvöld í Kaupmannahöfn gæfu fyrirmæli um hvaða símafyrirtæki Færeyingar veldu eða frekar veldu ekki þegar ráðist verður í 5G-verkefnið. Símamál falla undir færeysk stjórnvöld og þess vegna eiga dönsk stjórnvöld að halda sig frá þeim. Þetta er þó jafnframt þægileg staða fyrur ríkisstjórnina sem hefur til þessa látið hjá líða að svara þessari lykilspurningu: Felst í því áhætta í öryggismálum að láta Huawei setja upp 5G-kerfið í Færeyjum?

Eins og málum er háttað ýtir ríkisstjórnin svarinu á undan sér með því að vísa til heimildarlaga sem lengi hafi verið rætt um að semja, samþykkja og framkvæma. Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra, skýrði málið hins vegar rétt þegar hann sagði að teldi ríkisstjórnin að öryggisógn stafaði af færeysku Huawei-ævintýri hefði hún heimild til afskipta. Í stuttu máli má segja að Danir standi einnig í þeim sporum að þurfa að taka tillit til Bandaríkjamanna annars vegar og fjárhagslegs aðdráttarafls Kínverja hins vegar. Við sambærilegar aðstæður hefur tillitið til öryggisins vegið þyngst. Þegar Kínverjar sýndu áhuga á að fjárfesta í grænlenskum flugvöllum komu stjórnvöld í Kaupmannahöfn með fjármagn.

Í þessu máli núna standa Færeyingar einir. Sem smáþjóð innan smáþjóðarinnar eiga Færeyingar að halda jafnvægi á skurðlínunni milli tveggja stórvelda. Ríkisstjórnin hefur afsalað sér ábyrgðinni og vill ekki rétta Færeyingum hjálparhönd. Þó er brýn þörf á henni. Ríkjasambandið hefur ekki efni á að láta undan kínverskum þrýstingi.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …