Breska þjóðaröryggisráðið samþykkti þriðjudaginn 28. janúar að kínverska fyrirtækið Huawei hefði heimild til að eiga aðild að hluta uppsetningar á 5G-háhraðanetinu á Bretlandseyjum.
Kínverska fyrirtækið getur gert tilboð í þá hluta kerfisins sem snerta ekki kjarna þess og fær ekki að setja upp búnað nálægt „viðkvæmum stöðum“ eins og herstöðvum og kjarnorkuverum.
Ráðið tók þessa stefnumótandi ákvörðun þrátt fyrir viðvaranir frá Bandaríkjastjórn og þingmönnum Íhaldsflokksins sem töldu að leyfi til Huawei kynni að spilla trúnaðarsamskiptum við bandarísk stjórnvöld.
Í breska þjóðaröryggisráðinu sitja Boris Johnson forsætisráðherra, helstu ráðherrar og fulltrúar leyniþjónustustofnana. Ráðið viðurkennir að „veruleg áhætta“ sé tekin með viðskiptum við Huawei nema stigið sé varlega til jarðar og gripið til nauðsynlegra öryggisráðstafana. Það hefði á hinn bóginn kostað Breta „tugi milljarða“ að hafna hlutdeild af hálfu Huawei og leitt til „umtalsverða tafa og kostnaðar fyrir neytendur“.
Sett verður 35% þak á hlut Huawei i breska 5G-markaðnum. Þetta þak lækkar þegar fleiri framleiðendur 5G tækni koma til sögunnar. Nú er sænska fyrirtækið Ericsson í raun eini keppinautur Huawei.
Bresku leyniþjónustustofnanirnar segja að viðskipti af þessum toga við Huawei breyti í engu trúnaðarsambandi við vinveittar samstarfsþjóðir. Boris Johnson forsætisráðherra sagði mánudaginn 27. janúar að hann mundi aldrei stofna trúnaðarsamskiptum Breta við aðrar þjóðir í hættu.