Home / Fréttir / Huawei: Bretar kúvenda – áfall fyrir Kínverja

Huawei: Bretar kúvenda – áfall fyrir Kínverja

_113358378_huawei1

Bresk stjórnvöld munu útiloka kínverska tæknirisafyrirtækið Huawei frá framtíðarhlut í 5G-farkerfinu í Bretlandi. Oliver Dowden menningarmálaráðherra, sem fer með stafræn málefni, kynnti þessa ákvörðun í neðri deild breska þingsins þriðjudaginn 14. júlí.

Árið 2027 ber símafyrirtækjum að hafa lokið við að fjarlægja Huawei-tæknibúnað úr kerfum sínum og í lok þessa árs verður þeim bannað að kaupa búnað af Huawei.

Viðskiptabannið á Huawei tefur dreifingu 5G-farkerfisins í Bretlandi um tvö til þrjú ár og eykur kostnað við hana um 2 milljarða punda.

Dowden sagði að National Cyber Security Centre, Þjóðarnetöryggismiðstöðin, hefði breytt áhættumati sínu eftir að Bandaríkjastjórn setti kínverska fyrirtækið í bann.

„Með vísan til þeirrar óvissu sem orðin er um Huawei sem birgja geta Bretar ekki lengur treyst á öryggi 5G-búnaðar frá Huawei í framtíðinni,“ sagði Dowden.

Bandarískir embættismenn hafa um nokkurt skeið varað starfsbræður sína í Bretlandi við hættum sem felist í viðskiptum við Huawei. Bandarísk yfirvöld settu nýjar reglur um takmörkun á viðskiptum við kínverska fyrirtækið í maí, þar er Huawei meðal annars bannað að nota bandarísk forrit.

Í ákvörðuninni sem kynnt var þriðjudaginn 14. júlí felst kúvending hjá bresku ríkisstjórninni sem hafði áður heimilað að Huawei tæki þátt í hluta 5G-væðingarinnar í Bretlandi sem er á næsta leiti.

Boris Johnson forsætisráðherra stjórnaði fundi breska þjóðaröryggisráðsins að morgni 14. júlí þar sem staðfest var að útloika ætti Huawei frá 5G-farkerfinu. Í janúar 2020 sagði forsætisráðherrann að Huawei gæti átt allt að 35% aðild að bresku 5G-væðingunni. Hlutdeildin sneri að jaðri kerfisins og næði ekki inn í kjarna þess, þangað kæmist Huawei aldrei.

Þáttaskil urðu fyrir Breta þegar Bandaríkjastjórn setti bann við sölu bandarískra íhluta í Huawei-5G-kerfið. Leiddi þetta til þess að kerfið er ekki lengur talið öruggt í rekstri. Jafnframt hefur legið fyrir að stór hópur íhaldsþingmanna sem styður ríkisstjórnina að jafnaði hefði snúist gegn stjórninni í þessu máli. Andstæðingahópurinn hefur stækkað undanfarið vegna harkalegrar framgöngu Kínastjórnar í Hong Kong.

Áfall fyrir Kínastjórn

Fréttaskýrendur segja engan vafa á að ný afstaða Breta gagnvart Huawei hafi alvarlegar afleiðingar fyrir Kínastjórn. Kínverska kommúnistastjórnin hefur lagt töluvert undir pólitískt til að hafa skoðanamyndandi áhrif á breskan almenning og stjórnmálamenn í þágu Huawei. Hvernig sem á fyrirtækið er litið er bent á að í öllu tilliti verði að líta á það sem dótturfyrirtæki kínverska ríkisins.

Kínverjum er ljóst að neikvæð afstaða Breta í þeirra garð hefur mikið að segja um það hvaða ákvarðanir verða teknar um viðskipti við Huawei víðar í Evrópu. Þjóðverjar taka á næstunni ákvörðun um hver staða Huawei verður á stærsta símamarkaðssvæði Evrópu. Líklegt er talið að Angela Merkel Þýskalandskanslari feti í fótspor Breta enda eiga andstæðingar Huawei sífellt meira fylgi að fagna á þýska þinginu.

Þá er bent á í þessu sambandi að með því að setja Kínverjum stólinn fyrir dyrnar, hafna Huawei og mótmæla kröftuglega Peking-valdinu vegna framgöngu þess í Hong Kong skipi Brexit-Bretland sér í forystu á alþjóðavettvangi. Bretar hljóti að gegna lykilhlutverki við að þróa alþjóðlega samsteypu ríkisstjórna og einkafyrirtækja í frjálsum löndum heims sem vilji svara 5G-yfirburðum Kínverja. „Það er tímabært að breska ljónið öskri framan í kínverska drekann og sýni festu við að verja breska öryggishagsmuni gegn sífellt ágengari og ógurlegri andstæðingi,“ sagði Nile Gardiner, forstjóri Margaret Thatcher Center for Freedom við hugveituna Heritage Foundation í Washington, DC á vefsíðu The Telegraph 14. júlí.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …