
Ljósklæddi maðurinn með hattinn á myndinni af þremenningunum sem gerðu árásina á flugstöðina í Brussel að morgni þriðjudags 22. mars var handtekinn fyrir utan aðsetur belgíska ríkissaksóknarans síðdegis fimmtudaginn 24. mars. Hann var síðan leiddur með hópi annarra í sakbendingu föstudaginn 25. mars. Þar benti leigubílstjórinn sem ók þremenningunum út á flugvöll á hann. Laugardaginn 26. mars skýrði belgíski ríkissaksóknarinn frá því að þetta væri Fayçal Cheffou, og hefði hann verið kærður fyrir forystu og aðild að hryðjuverkahópi og morðtilræði.
Fayçal Cheffou er Brusselbúi og hefur meðal annars starfað sem lausamaður við fjölmiðlun. Athugun lögreglu á eftirlitsmyndavélum á leiðinni frá flugvellinum að Meiser-torgi í Brussel sýnir hann á ferð eða flótta að morgni 22. mars. Nokkrir mánuður eru síðan lögregla tók að hafa afskipti af honum.
Hann hélt sig mikið í Maximilien-garðinum í Brussel og reyndi þar að fá menn til að ganga til liðs við öfgahyggjumenn. Yvan Mayeur, borgarstjóri í Brussel, hafði nokkrum sinnum kært hann fyrir þetta athæfi til lögreglunnar í Brussel. Taldi borgarstjórinn hann „hættulegan“. Þá höfðu starfsmenn borgarinnar nokkrum sinnum haft afskipti af honum í garðinum þar sem hann hvatti hælsileitendur og skilríkjalausa menn til að ganga í lið með hópum öfgahyggjumanna.
Hvorki saksóknari né dómari í Brussel töldu sér fært að verða við kröfu borgarstjórans þar sem vandséð væri að Fayçal Cheffou bryti gegn lögum með athæfi sínu. Borgarstjórinn ákvað því 24. september 2015 að gefa út fyrirmæli um að Fayçal Cheffou mætti ekki fara í Maximilien-garðinn.
Cheffou vakti athygli sem fjölmiðlamaður þegar frétt sem hann gerði um að múslímum hefði verið gefinn matur í dagsbirtu í Ramadan-mánuðinum var sýnd víða. Fann hann að því að háttum múslíma væri ekki sýnd meiri virðing.
Heimild: Le Soir