Þrátt fyrir víðtækar öryggisráðstafanir í krafti neyðarlaga tókst hryðjuverkamanni, Mohamed Lahouaiej Bouhlel, 31 árs, með tvöfaldan ríkisborgararétt í Frakklandi og Túnis að verða 84 manns að bana og valda 202 líkamstjóni að kvöldi 14. júlí, þjóðhátíðardags Frakka. Hann ók stórum flutningabíl inn í mannþröng á strandgötunni Promenade des Anglais í Nice þar sem fjölskyldur stóðu og horfðu á flugeldasýningu í lok þjóðhátíðarhalda.
Daesh (Ríki íslams) lýsti laugardaginn 16. júlí yfir því að ökumaðurinn hafi verið „hermaður frá Ríki íslams og hann hafi gert árásina sem svar við kalli um að ráðast á íbúa landa í bandalaginu sem berst gegn Ríki íslams“. Yfirlýsingin birtist á samfélagssíðu sem er tengd Amaq-fréttastofunni en þar segjast menn starfrækja hálfopinbera fréttastofnun hryðjuverkasamtakanna.
Að sögn franska blaðsins Le Figaro hefur franska lögreglan ekki fundið nein merki um tengsl ódæðismannsins við Daesh.
Undanfarna 19 mánuði hafa Frakkar mátt þola hryðjuverk sem hafa kostað um 240 manns lífið. Vegna síendurtekinna hryðjuverka í Frakklandi sneri þýska fréttastofan Deutsche Welle sér til Ronju Kempin, sérfræðings hjá Þýsku utanríkis- og öryggismálastofnuninni SWP (Stiftung Wissenschaft und Politik) og spurði: Hvers vegna hvað eftir annað í Frakklandi?
Ronja Kempin svarar:
„Ástæðurnar eru margar, þær tengjast innbyrðis og og veikja Frakkland svo mjög í þessu tilliti. Í fyrsta lagi eru Frakkar meðal Evrópuþjóða sem láta verulega að sér kveða í alþjóðastríðinu við hryðjuverkamenn. Franski herinn kemur við sögu í Sýrlandi og Írak þar sem hann varpar sprengjum á „Ríki íslams“.
Í öðru lagi má ekki gleyma þeirri staðreynd að sem gamalt nýlenduveldi hýsir Frakkland stórt samfélag múslima og innan þess hafa menn tvöfaldan ríkisborgararétt: franskan og upprunalands síns. Frönsk yfirvöld eiga erfitt með að fylgjast með einstaklingum sem ganga öfgahyggju á vald því að þeir geta auðveldlega ferðast til og frá landinu með franskt vegabréf. Þeir þurfa ekki áritun til að dveljast í Frakklandi séu þeir frá Sýrlandi, Túnis eða Alsír, þeir hafa ríkisborgararétt í Frakklandi.
Þá má finna skýringar innan Frakklands sjálfs. Franska þjóðin er afhelguð í þeim skilningi að skýr skil eru milli trúar og ríkis. Ríkið telur sig ekki bera ábyrgð á trúarlegum málefnum. Í því felst að af þess hálfu hefur ekki verið haft auga með því sem gerist í samfélögum múslima, þar hefur þróunin til öfgahyggju farið fram hjá ríkinu þar sem það finnur einfaldlega ekki til neinnar ábyrgðar á þessu sviði.
Enn má nefna tvær ástæður fyrir því að hryðjuverk hefur að nýju verið unnið í Frakklandi. Mikið atvinnuleysi er í landinu. Tæplega 10% íbúanna eru án vinnu. Þetta verður enn alvarlegra þegar til þess er litið að um 46% ungs fólks sem á rætur meðal innflytjenda er án atvinnu og þar með í óvissu um framtíðina. Að þessu leyti hefur skapast jarðvegur fyrir öfgahyggju innan landsins.
Loks má nefna að enn eins og áður eiga franskar njósnastofnanir erfitt með að starfa saman. Það er ekki næg samvinna milli þessara stofnana. Hvað eftir annað berast upplýsingar ekki á milli stofnana og stjórnmálamönnum hefur ekki tekist að finna leiðir til að auka samvinnu ólíkra stofnana. Við sjáum að núna leiða þessar stíflur oft til lífshættulegra afleiðinga fyrir land og þjóð.“
Ronja Kempin er spurð hvers vegna þetta hryðjuverk sé unnið núna. Hún minnir á að 14. júlí fagni Frakkar sigrinum í byltingunni 1789 þar sem slagorðið hafi verið: Frelsi, jafnrétti og bræðralag. Vegna byltingarinnar líti Frakkar á sig sem brautryðjendur lýðræðis og mannréttinda. Árás á þessum degi sé yfirlýsing gegn þessum gildum: „Gildi lýðveldisins ná ekki til okkar. Við erum andvígir þeim og sýnum það með táknrænum verknaði.“ Þetta sé alvarlegt högg á allt sem Frakkar eigni sér – alþjóðlega og á heimavelli.
Í öðru lagi hafi François Hollande Frakklandsforseti sagt í hefðbundnu ávarpi til þjóðarinnar að morgni 14. júlí að nú hefðu stjórnvöld mun betri tök en áður á hryðjuverkaógninni. Með árásinni í Nice kunni íslamskir hryðjuverkamenn að vilja segja: Þið náið engum tökum á okkur!
Loks er Ronja Kempin spurð um gagnaðgerðir Frakka, hve harðar þær verði. Hún svarar:
„Já, Frakklandsforseti hefur þegar sagt að Frakkar muni herða aðgerðir gegn Írökum og Sýrlendingum. Á þessu stigi má þó segja að franska ríkisstjórnin geti ekki látið meira að sér kveða hernaðarlega á svæðinu.
Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að frá því að hryðjuverkin voru unnin í nóvember hafa meira en 10.000 hermenn og aðrir liðsmenn franska hersins verið við störf í landinu, það er Frakklandi sjálfu, í baráttu við alþjóðlega hryðjuverkamenn. Það dregur úr getu Frakka til að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi.“