Home / Fréttir / Hryðjuverkið í Berlín vekur Þjóðverja vegna hættunnar af íslamistum

Hryðjuverkið í Berlín vekur Þjóðverja vegna hættunnar af íslamistum

Minnst látinna við Brandenborgarhliðið í Berlín.
Minnst látinna við Brandenborgarhliðið í Berlín.

Vegna stærðar sinnar er Þýskaland ákjósanlegur áfangastaður fyrir íslamista segir Nicola Barotte, blaðamaður franska blaðsins Le Figaro fimmtudaginn 22. desember. Í landinu eru um 8.000 salafistar, boðendur öfgakennds íslams, þeir voru innan við 7.000 fyrir tveimur árum.

Oft hefur verið vakin athygli á hættunni sem þessu fylgir. Bent er á að Þýskaland sé „í sigti“ íslamskra hryðjuverkamanna. Yfirvöldin tóku mið af árásunum í París og Brussel. „Hættan hefur aukist,“ var sagt. Mánudagskvöldið19. desember varð ógnin að veruleika í Þýskalandi og Þjóðverjar sem höfðu löngum talið sig örugga stóðu í sömu sporum og óvarðir nágrannar þeirra. Þýska ríkisstjórnin hefur neitað að nota orðið „stríð“ um afstöðu sína, franska ríkisstjórnin lýsir aðgerðum sínum með því orði. Fyrir Þjóðverja er merking orðsins of þungbær, lagalega og sögulega. Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, sagði miðvikudaginn 21. desember: „Við höfum, eins og aðrar þjóðir, orðið fyrir sársaukafullri reynslu vegna hryðjuverks. Við stöndum frammi fyrir sömu hættu. Það sama á við um okkur og aðra að við erum skotmark þeirra sem eru óvinur lifnaðarhátta okkar.“ Á liðnu sumri dreifði Daesh (Ríki íslams) meðal annars myndbandi á þýsku til að hvetja til jihads, heilags stríðs. Markmiðið var tvíþætt að ráðast á Þjóðverja og virkja liðsmenn í Þýskalandi.

„Við erum virkir þátttakendur í bandalaginu gegn Daesh. Íslamistar líta á okkur sem óvini sína,“ segir Joachim Krause, sérfræðingur í hryðjuverkum og baráttunni gegn vígamönnum heilags stríðs íslamista við Christian-Albrechts-háskólann í Kiel. Litlu máli skiptir þótt aðild Þjóðverja sé háð takmörkunum: þýski herinn, Bundeswehr, tekur ekki þátt í átökum heldur í eftirlitsferðum og kemur að þjálfun. Með Angelu Merkel gegna Þjóðverjar einnig forystuhlutverki í Evrópu. Í augum íslamskra hryðjuverkamanna er sérstakt markmið að grafa undan stöðugleika í Þýskalandi.

Vígamenn Daesh hafa oft notað leiðir flóttamanna til Þýskalands til að laumast til Evrópu. „Á þennan hátt vilja þeir sýna að þeir geti búið um sig meðal okkar,“ segja leyniþjónustumenn. „Markmið hryðjuverkamanna er að skapa ógn áður en þeir drepa,“ segir Peter Neumann, þýskur sérfæðingur í öfgahyggju, í nýjustu bók sinni. Þeir hafi náð markmiði sínu með því að vekja efasemdir um réttmæti þess að taka á móti flóttafólki.

Vegna stærðar sinnar er Þýskaland einnig áskjósanlegur áfangastaður fyrir íslamista. Í landinu eru um 8.000 salafistar, boðendur öfgakennds íslams, þeir voru innan við 7.000 fyrir tveimur árum. Nokkrir þeirra eins og Pierre Vogel og Sven Lau sem eru nú í fangelsi eru þekktir fyrir boðskap sinn á þýsku sem birtist á samfélagssíðum. Með boðun á þessum vettvangi kallar Daesh menn til liðs við sig. Yfirvöld ákváðu nýlega að snúast gegn áróðri Daesh og í nóvember bönnuðu þau dreifingu kóransins á götum úti. Um 800 Þjóðverjar hafa farið til Sýrlands til þátttöku í heilaga stríðinu þar. Sakamálalögreglan (BKA) telur að 549 „hættulegir íslamistar“ séu í Þýskalandi. Anis Amri sem er grunaður um hryðjuverkið í Berlín að kvöldi mánudags 19. desember er einn þeirra.

Guido Steinberg, sérfræðingur í hryðjuverkum, birti í ágúst 2016 greinargerð þar sem hann lýsti aðferðinni sem Daesh beitir í Evrópu. „Á fyrsta stigi er gripið til frekar lítilla hryðjuverka til að beina kröftum öryggisstofnana að úrlausn þeirra og minnka árvekni þeirra vegna undirbúnings undir stórfelldari árásir.“ Í ljós kemur hvort hryðjuverkið sem framið var á jólamarkaðnum á Breitscheidplatz í Berlín fellur innan þessa ramma. Hitt blasir við að Þjóðverjar telja að þeir hafi að kvöldi mánudagsins orðið fyrir fyrstu „raunverulegu“ árás íslamista. Hún hafi verið undirbúin og skipulögð sem verk eins manns og án þess að valda of miklum skaða.

Á liðnu sumri unnu tveir einstaklingar sem sögðust vera liðsmenn Daesh hryðjuverk í Þýskalandi, blessunarlega án þess að verða nokkrum að bana: fjórir særðust vegna árásar með öxi í Würzburg og fimmtán særðust í misheppnaðri sprengjuárás í Ansbach. Í ársbyrjun gerðu ungir liðsmenn Daesh í Þýskalandi einnig hnífaárásir. Í hópnum var ung stúlka frá Hannover. Hún hafði heillast af öfgafullum boðskap sem Abu Walaa flutti en hann hafði einnig heillað Anis Amri. Abu Walaa var handtekinn í nóvember, hann er talinn einn af þeim sem virkja menn til hollustu við Daesh í Þýskalandi.

Tekist hefur að brjóta upp margar sellur hryðjuverkamanna í Þýskalandi áður en liðsmenn þeirra hafa unnið voðaverk. Þriðjudaginn 20. desember var 23 ára Sýrlendingur „án tengsla við hryðjuverkið í Berlín“ handtekinn í Baden-Württenberg. Hann er grunaður um að styðja hryðjuverkasamtökin al-Nosra og Daesh. Í fyrri viku var 24 ára Túnisi handtekinn vegna tengsla hans við Daesh.

Í þessu efni er þó ekki allt sem sýnist því að þýska lögreglan er næsta vanbúin til að takast á við mál af þessu tagi: „Getan til eftirlits er takmörkuð bæði þegar litið er til gæða og umfangs,“ segir Joachim Krause. Þjóðverjar leggja mikla áherslu á að verja frelsi og friðhelgi einstaklingsins. Vegna þessa glíma öryggisyfirvöld við margar hindranir við eftirlit sitt og þau hafa takmarkaðar heimildir til að beita þeim tæknibúnaði sem fyrir hendi er. Þýskar njósnastofnanir eiga því mikið undir náinni samvinnu við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum. Þetta kom til dæmis í ljós í október 2016 þegar Jaber al-Bakr var handtekinn vegna áforma hans um að vinna hryðjuverk á Berlínarflugvelli.

Hafa Þjóðverjar dregið of lengi að átta sig á ógninni af íslamistum? Á tíunda áratugnum sinntu þeir þessum málum mjög takmarkað og „sellan í Hamborg“ gat starfað í friði og undirbúið árásina á New York 11. september. Þjóðin sem átti aldrei nýlendu í löndum araba og hélt að sér höndum í Írakstríðinu leit á „stríð menningarheimanna“ sem átök öfgamanna gegn Vesturlöndum sem snertu sig ekki. Fólk af tyrknesku bergi brotið sem er kjarni múslima í Þýskalandi ræktaði ekki með sér andúð á Þjóðverjum. Fáir úr hópi þessa fólks hafa gerst þátttakendur í heilögu stríði íslamista. Loks hafði Angela Merkel opnað faðm sinn, ekki síst með yfirlýsingunni „íslam er hluti Þýskalands“. Andi umburðarlyndis er þó vafalaust einnig eitt af skotmörkum hryðjuverkamannanna.

Heimild: Le Figaro/Nicola Barotte, fréttaritari í Berlín

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …