
Anis Amri sem talið er að hafi framið hryðjuverkið á jólamarkaðnum í Berlín 19. desember bar á flóttaferð sinni til Mílanó sömu byssuna og notuð var til að drepa pólskan bílstjóra vöruflutningabílsins í Berlín. Notaði Amri byssuna og særði lögreglumann á brautarstöð í úthverfi Mílanó. Við svo búið felldi annar lögreglumaður Amri.
Ítalska lögreglan greindi frá þessu miðvikudaginn 4. janúar. Nú er rannsakað hvort byssan hafi verið notuð við önnur afbrot á Ítalíu eða annars staðar.
Amri, 24 ára Túnisi, er grunaður um að hafa ekið vöruflutningabílnum inn í mannfjölda á jólamarkaði í Berlín 19. desember. Ökumanninum tókst að komast undan og í fjóra daga var hans leitað þar til hann fannst á brautarstöðinni við Mílanó aðfaranótt 23. desember. Amri sást á myndí Hollandi og nú hefur verið greint frá því að hann hafi sést á mynd í Bruxelles-Nord brautarstöðinni á flótta sínum.
Þýska lögreglan rannsakar nú nánar tengsl Amris við 26 ára gamlan Túnisa sem snæddi kvöldverð með Amri á veitingastað í Berlín daginn fyrir hryðjuverkið. Þeir höfðu þekkst í um það bil eitt ár. Talsmaður þýsks saksóknara segir að þeir hafi átt í „áköfum samræðum“ og þess vegna hafi lögregluna grunað að Túnisinn ætti aðild að hryðjuverkinu eða hefði að minnsta kosti vitneskju um hvað fyrir Anis Amri vakti. Lögreglan hefur þó ekki nóg í höndunum til að ákæra Túnisann sem bjó í búðum fyrir hælisleitendur. Hann var kallaður til yfirheyrslu þriðjudaginn 3. janúar og situr nú í haldi vegna gruns um að hafa svikið út félagslegar bætur. Hann sætti rannsókn árið 2015 grunaður um að hafa reynt að verða sér úti um sprengiefni. Vegna skorts á sönnunum var málið látið niður falla.
Þýski saksóknarinn sem sérhæfir sig í rannsókn hryðjuverkamála segir að gerð hafi verið húsleit í íbúð í Berlín þar sem fyrrverandi samleigjandi Anis Amris bjó. Þá hefur flóttaleið hans frá Berlín verið kortlögð um Holland og Frakkland til Ítalíu með langferðabíl og lest. Á hinn bóginn hefur ekki tekist að skýra hvernig hann komst frá Berlín um Þýskaland til Hollands.
Lögreglan veit þó að skömmu eftir hryðjuverkið fór Amri um „brautarstöðina Zoologischer Garten“ rétt við jólamarkaðinn í Berlín. Hann gaf vísvitandi merki fyrir framan eftirlitsmyndavél með því að lyfta „tawid-fingri, vísifingri“, segir talsmaður lögreglunnar. Þetta merki er almennt notað af félögum í Daesh-hryðjuverkasamtökunum (Ríki íslams).
Hollenska lögreglan telur sig hafa á hreinu hvernig Amri hagaði ferð sinn um Holland 21. desember eftir að hann kom til bæjarins Nijmegen, skammt frá þýsku landamærunum, og tók lest til aðaljárnbrautastöðvarinnar í Amsterdam. „Síðla dags fór hann upp í lest til Brussel og hélt til Belgíu,“ segir í tilkynningu hollensku lögreglunnar. Þessar upplýsingar falla að því sem belgíska lögreglan staðfesti miðvikudaginn 4. janúar, að Amri hefði komið á brautarstöðina Bruxelles-Nord frá Amsterdam um kl. 19.00 21. desember. Þetta megi sjá á myndum sem teknar hafi verið af belgísku járnbrauta-lögreglunni í Brussel. Hann hafi dvalist í Brussel til um kl. 21.00. Frekari upplýsingar gefur belgíska lögreglan ekki.
Svissneska lögreglan skýrði frá því miðvikudaginn 4. janúar að hún rannsakaði nú á grundvelli upplýsinga frá erlendum samstarfsaðilum hvort Anis Amri hafi átt samskipti við menn í Sviss.
Heimild: Le Figaro