Home / Fréttir / Hryðjuverkalögreglunni sigað á Prígósjín í Rússlandi af ótta við valdarán

Hryðjuverkalögreglunni sigað á Prígósjín í Rússlandi af ótta við valdarán

Jevgeníj Prígósjín

Rússnesk stjórnvöld hófu að kvöldi föstudagsins 23. júní sakamálarannsókn gegn Jevgeníj Prigósjín, eiganda Wagner-málaliðahersins, vegna gruns um að hann ætlaði að steypa rússneska varnarmálaráðherranum Sergei Shoigu af stóli.

Tilkynning um rannsóknina var gefin eftir að einkaherstjórinn Prígósjín hafði sakað varnarmálaráðherrann um að hafa gefið fyrirmæli um flugskeytaárás á stöðvar Wagner-liða í Úkraínu þar sem þeir berjast við hlið Rússa gegn Úkraínuher.

Prígósjín sagði að liðsmenn sínir myndu nú refsa Shoigu og hvatti hann rússneska herinn til að snúast ekki til varnar fyrir ráðherrann. Prigósjín lýsti yfir að þetta væri ekki vopnuð uppreisn heldur framganga í þágu réttvísinnar.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði Prígósjín fara með rangt mál. And-hryðjuverkaráð ríkisins, æðsta stjórnvaldið gegn hryðjuverkum, sagði að hafin yrði sakamálarannsókn vegna gruns um að hvatt væri til vopnaðs valdaráns.

Talsmaður Kremlverja, Dmitríj Peskov sagði að Vladimir Pútin Rússlandsforseta hefði verið skýrt frá stöðu mála og bætti við að gripið hefði verið til „allra nauðsynlegra ráðstafana“.

Fréttamaður BBC segir að atburðarásin sé til marks um furðulega stigmögnun átaka innan rússneska stjórnkerfisins.

Prígósjín sagði í hljóðupptöku sem var send út á Telegram samfélagsmiðlinum að „gífurlegur fjöldi“ stríðsmanna hans hefði verið drepinn í árás Rússa á bækistöð Wagner-liða. Hann lagði þó ekkert fram því til sönnunar.

„Þeim sem drápu drengina okkar auk tug þúsunda rússneskra hermanna [í stríðinu í Úkraínu] verður refsað,“ sagði hann:

„Ég bið ykkur um að veita ekki andstöðu. Litið verður á hvern þann sem gerir það sem ógn og hann verður eyðilagður. Þetta á við um sérhverja vegastöð á leið okkar og flugvélar.

Vald og starf forsetans, ríkisstjórnarinnar, lögreglunnar og rússneskra varðliða haggast ekki. Þetta er ekki vopnað valdarán heldur framganga í þágu réttvísinnar. Aðgerðir okkar trufla heraflann á engan hátt.“

Surovikin hershöfðingi, annar æðsti stjórnandi rússneska hersins í Úkraínu, sem hlotið hefur lof frá Prígósjín fyrir forystu sína hvatti málaliðaforingjann um til að „stöðva bílalestirnar og snúa liðinu til stöðva sinna“.

„Við erum af sama blóði, við erum stríðsmenn,“ sagði hershöfðinginn á myndskeiði. „Þú mátt ekki auðvelda óvinum okkar leikinn á tímum sem eru landi okkar erfiðir.“

Áður en Prígósjín hótaði valdbeitingunni sagði hann að stofnað hefði verið til stríðsins í Úkraínu til að „Shoigu gæti orðið marskálkur“.

„Varnarmálaráðuneytið reynir að blekkja almenning,  blekkja forsetann með þeirri sögu að Úkraínumenn hafi gert einhverja brjálaða árás, að Úkraínumenn  – ásamt allri NATO-blokkinni – hafi ætlað að ráðast á okkur.“

Bent er á að með þessum orðum ráðist Prígósjín ekki aðeins á Shoigu heldur einnig sjálfan Pútín, þetta sé nú kjarninn í réttlætingu hans á stríðinu – að Úkraínumenn séu aðeins handbendi Bandaríkjanna og NATO í innrásarstríði gegn Rússum.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …