Home / Fréttir / Hryðjuverkaforingi laumaðist til Bretlands í aðdraganda árásar í París

Hryðjuverkaforingi laumaðist til Bretlands í aðdraganda árásar í París

 

Abdelhamid Abaaoud
Abdelhamid Abaaoud

Talið er að Abdelhamid Abaaoud sem skipulagði hryðjuverkaárásina í París 13. nóvember, þar sem 130 mann féllu, hafi laumast inn í Bretland á fölsku vegabréfi fáeinum mánuðum fyrir hryðjuverkið í París.

Frá þessu er sagt á vefsíðunni The Telegraph laugardaginn 26. desember. Abaaoud er talinn hafa verið í London til að leita eftir „tæknilegri aðstoð“ frá öfgamönnum múslima þar. Honum hafi tekist að komast til Bretlands, sem er utan Schengen, þrátt fyrir að vera eftirlýstur á alþjóðaskrá yfir hryðjuverkamenn.

Lögreglan í París felldi Abaaoud í átökum í St. Denis hverfinu í París 18. nóvember. Hann er talinn hafa verið stutt í Bretlandi. Heimildarmenn sögðu blaðinu The Sun að rannsakað væri hvort hann hefði komið til Bretlands í Kent.

Fyrir nokkru var skýrt frá því að Abaaoud hefði haft samband við „hóp samstarfsmanna“ í Birmingham í aðdraganda árásarinnar. Lögregla í borginni hvatti almenning þar til að „hafa augun hjá sér en ekki hræðast“ hún veitti frönskum yfirvöldum aðstoð við rannsókn málsins.

Hættustig í Bretlandi er nú severe – verulegt – hið annað hæsta sem bendir til að til árásar kunni að koma.

Abaaoud fæddist í apríl 1987 í Belgíu en fjölskylda hans fluttist þangað frá Marokkó. Hann bjó í Molenbeek-hverfinu í Brussel. Hann hafði forystu fyrir hryðjuverkahópi í belgísku borginni Verviers sem belgíska lögreglan leysti upp í janúar 2014. Hann var dæmdur að honum fjarstöddum í 20 ára fangelsi ásamt með 32 öðrum vígamönnum múslima. Hann hefur komið fram í áróðursmyndböndum Ríkis íslams (Daesh) og í tímaritum hryðjuverkasamtakanna þar sem hann hreykti sér af því hvernig hann komst undan handtöku. Lögreglu grunar að hann hafi staðið að baki hryðjuverkaárásinni um borð í hraðlestinni frá Amsterdam til Parísar 21. ágúst 2015.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …