
Að morgni þriðjudags 22. mars sprungu þrjár sprengjur í Brussel, tvær á flugvellinum í Zaventem í útjaðri borgarinnar og ein í Maalbeek-neðanjarðarbrautarstöðinni í hjarta borgarinnar, skammt frá ESB-hverfinu. Að minnsta kosti 34 týndu lífi og hundruð manna særðust. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam segjast standa að baki árásunum.
Árásirnar í Brussel voru gerðar fimm dögum eftir að belgíska lögreglan handtók Salah Abdeslam, einn af skipuleggjendum hryðjuverkaárásarinnar í París 13. nóvember 2015. Vitni segja að hrópað hafi verið á arabísku í flugstöðinni í sama mund og spengjurnar sprungu.
Í franska blaðinu Le Figaro birtist þriðjudaginn 22. mars viðtal við Pierre Vermeren, prófessor í nútímasögu Norður-Afríku við háskólann Paris-I Panthéon-Sorbonne.
LE FIGARO: Salah Abdeslam var handtekinn á föstudag í Molenbeek. Hvernig gat hann falið sig svo lengi í hverfi í Brussel sem hefur verið undir miklu eftirliti?
Pierre VERMEREN: Enn sem komið er erfitt að átta sig nákvæmlega á því sem þarna hefur gerst, hitt ert þó víst að honum hefur tekist að fela sig í hverfi sem hefur frá því í nóvember verið talið bakland hryðjuverkamannanna í París. Þetta gefur til kynna að þarna sé að finna marga samverkamenn og samstöðu meðal heimamanna. Um leið og þetta er sagt ber að líta til þess að atvinnu-hryðjuverkahópar gæta þess skipulega að sem minnstar upplýsingar berist til almennings þótt ekki sé unnt að hafa stjórn á slíku um ótakmarkaðan tíma. Dæmin eru óteljandi um felustaði á Korsíku, Sikiley og í Kabilyu [í fjalllendi í Alsír] eða á öðrum stöðum við Miðjarðarhaf þar sem glæpastarfsemi er landlæg. Svo virðist sem hryðjuverkahópar í Brussel hafi búið um sig með fjölskyldum og hópum sem kenndir eru við Rif (strandhérað við Miðjarðarhaf í Marokkó) sem skapar tengsl glæpastarfsemina sem áður er nefnd. Í þessum fjallabyggðum skammt frá Miðjarðarhafi, einkum meðal íbúa þaðan sem flust hafa til annarra landa, hafa menn tamið sér þagmælsku og að spyrja einskis, að verjast í krafti þagnar.“
Le Figaro: Eftir árásirnar í nóvember nefndir þú í samtali við FigaroVox til sögunnar gengin frá Rif sem smygla fíkniefnum frá Rif til Spánar, Frakklands og Belgíu. Eru tengsl milli fíkniefnasala og hryðjuverkamanna?
Pierre VERMEREN: Tengslin hafa ekki verið sköpuð fyrirfram, hins vegar má líta á mafíu-netið sem annast útflutning og dreifingu á hassi sem sprota fyrir sellur og síðan kerfi herskárra ofsatrúarmanna. Þeir ungu menn sem stunda glæpaverkin hafa ekki aðeins beðið guð fyrirgefningar á mörgum óhæfuverkum og ekki þarf að draga í efa þeir sem vilja fá þá til annarra verka ala á sektarkennd þeirra, þessir menn halda sig á jaðri samfélagsins og engu er líkara en þeir bíði þess að vera virkjaðir. Þeir hafa hagnast á smygli og hafa þekkingu á vopnum og þeim sem útvega þau, þeir eru vanir að fara með fé og nota felustaði, þeir kunna að ferðast um Evrópu og yfir landamæri, einkum þrönga sundið við Gíbraltar, Njörvasund. Þeir sveifla sér stöðugt milli síma, netsins og beinna samskipta, maður á mann, þar sem það jafngildir dauðadómi að standa ekki við orð sín – þessu má kynnast í kvikmyndinni Gíbraltar eftir Julien Leclercq sem var frumsýnd árið 2013. Þessa hópa má flokka sem hluta samfélagsins í Rif, þeir eru berberar, íbúar við Miðjarðarhaf, einangraðir frá öðrum sem tala saman á máli sem lögregla á Vesturlöndum skilur ekki nú á tímum og starfa eftir sömu reglum og mafían á Korsíku eða Sikiley: varðstaða um eigin heiður, fjölskylduna og hópinn, undirgefni gagnvart foringjum, orðheldni, leyndarhyggja og þagmælska, launhelgi og blóðhefnd.
Le Figaro: Er yfirvöldunum kunnugt um þessi net og einstaka hópa innan þeirra? Hefur verið gripið til ráðstafana eftir árásirnar í nóvember?
Pierre VERMEREN: Lögreglan veit örugglega um þetta fólk. Væri ekki svo eftir fjörutíu ára viðskipti þess með hass í Vestur-Evrópu mætti segja það dapurlegt. Fjölskyldurnar eru þekktar því að tengslahópurinn hefur orðið sýnilegur á löngum tíma. Belgar halda sér ef til vill meira til hlés á þessu sviði en Frakkar og Spánverjar. Hinir síðastnefndu þekkja fjölskyldurnar frá nýlendutímanum og fylgjast náið með því sem gerist í Rif frá spænsku hólmlendunum á Miðjarðarhafsströnd Marokkó, Ceuta og Melilla, en um þær fara ferðamenn, kaupmenn, smyglarar og fíkniefnasalar. Nú er loks svo komið að belgíska og hollenska lögreglan hafa tekið sig á í þessum efnum. Þá vita leyniþjónustumenn frá Marokkó sem starfa töluvert í Frakklandi og á Spáni einnig mikið um þessa hópa. Sömu sögu má segja um leyniþjónustumenn frá Alsír eftir að samband varð að nýju milli þeirra og Frakka. Lögreglan í Marokkó og Alsír getur ekki litið fram hjá hættunni af starfsemi mafíunnar eftir borgarastríðið í Alsír á tíunda áratugnum og árásirnar í Casablanca (2003) og Madrid (2004), þessari starfsemi má líkja við heilagt stríð vígamanna múslíma. Lögregla og leyniþjónustur í Frakklandi og á Spáni hafa skilgreint hættuna af þessari starfsemi til fullnustu. Á hinn bóginn láta franskir stjórnmálamenn og kannski spænskir líka sér þetta í léttu rúmi liggja, af vanþekkingu, af áhugaleysi eða vegna hugmyndafræði – maður þorir ekki að ímynda sér að efnislegir hagsmunir séu í húfi. Af þessum sökum hefur svo lítið miðað frá árásunum árið 1993 (Marrakech), 1995 (Kelkal), 1996 ( Roubaix-gengið), 2003 (Casablanca), 2004 (Madrid), 2012 (Merah) og 2015 (París í janúar og nóvember). Í öllum þessum tilvikum hafa verið tengsl milli hópa hryðjuverkamanna og mafíunnar.
Le Figaro: Loka yfirvöld Evrópuríkja augunum fyrir neðanjarðarhagkerfinu til að kaupa samfélagsfrið í löndum sínum?
Pierre VERMEREN: Sú skoðun hefur rutt sér til rúms undanfarna áratugi meðal ráðamanna (til hægri og vinstri) að verslun með hass sé ekki eins slæm og áður var talið. Að vegna hennar geti menn lifað á spennuþrungnu fátæktarsvæði í Marokkó, Rif-héraðinu. Að stöðugleiki í Marokkó vegi þyngra en heilbrigði ungra Evrópubúa, eins og hið forna konungdæmi eigi sér enga framtíð án þessa. Með öðrum orðum má segja að elíturnar þoli þetta fíkniefni sem löngum hefur verið talið milt þótt geðsjúkrahúsin séu full af þúsundum ungmenna sem gengið hafa af göflunum vegna neyslu á því. Þær telja að í hassi felist leið til að kaupa samfélagsfrið hjá ungu fólki, til að auðga fátæka og draga úr byltingarþrá annarra. Menntunarleysið, ofbeldið, geðveikin, umferðarslysin (…) skipta minna máli í þessu sambandi en afkoma mafíunnar sem yrði enn ofbeldisfyllri gæti hún ekki stundað þessi viðskipti. Í stuttu máli þá telja margir miklu skipta að ekkert sé gert á hlut hinna umfangsmiklu fíkniefnasmyglara, þeir eru taldir vernda Marokkó en einnig úthverfin og róa unga fólkið… Frá því var skýrt í fjölmiðlum þegar árið 2005 að ekki hefði verið hreyft við neinu í borgunum þar sem neysla fíkniefna er mest. Það er sérkennilegt að hluti þess verkefnis að halda uppi lögum og reglu á almannafæri skuli framselt á þennan hátt til mafíu frá Rif og samstarfsmanna hennar í ólíkum „afkimum“ Evrópu – einkum þegar í augum þeirra sem vita um eyðilegginguna í Rif þótt Múhameð VI. hafi reynt að bæta úr henni. Af 3.000 tonnum af hassi sem árlega eru flutt út til Evrópu eru nokkrir tugir (kannski hundruð) gerð upptæk ár hvert, það dugar ekki en sannar þó að lögreglan er að störfum.