Home / Fréttir / Hryðjuverk og óvissa um fyrirætlanir Rússa setja mestan svip á starf og stefnu NATO

Hryðjuverk og óvissa um fyrirætlanir Rússa setja mestan svip á starf og stefnu NATO

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.

Hryðjuverk og óvissa um fyrirætlanir Rússa auk yfirgangs þeirra voru helstu áskoranir Atlantshafsbandalagsins (NATO) á árinu 2015 að sögn Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra bandalagsins, þegar hann kynnti ársskýrslu sína fimmtudaginn 28. janúar. Viðbrögð bandalagsins hafi falist í aukinni áherslu á sameiginlegan varnarmátt og hvatningu til evrópskra bandalagsríkja um að auka útgjöld sín til varnarmála.

„Hryðjuverkaárásir í borgum okkar og mesta flóttamannavandamál í Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni“ sýna að mati Stoltenbergs innbyrðis tengsl milli „öryggisleysi erlendis og öryggis á heimavelli“.

Í skýrslunni segir að eitt af því sem bandalagið hafi gert nýlega til að efla varnarmátt sinn sé að hrinda viðbragðsáætluninni Readiness Action Plan (RAP) sem samþykkt var á leiðtogafundi NATO í Wales árið 2014 í framkvæmd. Í RAP-áætluninni felst að senda með hraði NATO-herafla til aðildarríkjanna austast í Evrópu; koma á fót litlum herstjórnarstöðvum í þessum ríkjum auk þess að fjölga orrustuþotum og ferðum þeirra við loftrýmisgæslu yfir Eystrasaltsríkjunum.

Ákvörðun um þetta hafi verið tekin vegna aðgerða Rússa í Austur-Úkraínu og vegna þess að Rússar stundi það sem kallað er blendings-stríð (hybrid warfare) þar sem  beitt sé aðgerðum á sviði efnahagsmála og áróðri til að hafa áhrif innan einstakra ríkja. Til að bregðast við þessu hafi NATO eflt tölvuvarnir sínar og aukið hvers kyns upplýsingaöflun. Á árinu 2015 lauk bandalagið fyrstu tilraunum með Global Hawk drónann sem gerir því kleift að beita nýrri hátækni við fjarkönnun og öflun upplýsinga úr lofti.

Um þessar mundir uppfylla aðeins fimm af 28 aðildarríkjum NATO samþykkta meginreglu um að verja hið minnsta 2% af vergri landsframleiðslu (VLF) til varnarmála. „Sú breyting varð á árinu 2015 að horfið var frá margra ára samdrætti útgjalda til varnarmála í evrópskum bandalagsríkjum og Kanada,“ sagði Stoltenberg.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams (RÍ) sem fylgja öflugri hernaðarstefnu hafa aðgang að fjármunum og búnaði til að skipuleggja hryðjuverk hvar sem er í heiminum. NATO segir að RÍ sé veruleg ógn við öryggi NATO-ríkjanna. Til að bregðast við þessari hættu leggi hvert einstakt aðildarríki sitt af mörkum til alþjóðlegs átaks gegn RÍ. Nú hafa 65 ríki tekið höndum saman um þetta átak.

Viðleitni NATO til að eyðileggja RÍ er ekki auðveld í framkvæmd. Í fyrsta lagi má nefna hernaðarlega íhlutun Rússa í Sýrlandi til stuðnings Assad Sýrlandsforseta og andstöðu Rússa við að verða þátttakendur í hinu alþjóðlega átaki. Í ársskýrslu NATO segir að afstaða Rússa skapi „alvarlega áhættu“ vegna þess að ekki sé öruggt að þeir viðurkenni alþjóðareglur og umsamdar aðferðir. Þetta kunni að leiða til óheppilegra atvika eins og þegar rússnesk orrustuþota var skotin niður í lofthelgi Tyrklands í nóvember 2015.

Í öðru lagi tefur það framgang alþjóðlega átaksins gegn RÍ að einstök ríki leggja ekki nóg af mörkum til átaksins.

Við kynninguna á ársskýrslu NATO sagði Jens Stoltenberg: „Dyr bandalagsins standa opnar þeim sem sækjast eftir aðild að NATO.“ Líklegt er að innan skamms verði Svartfjallaland 29. aðildarríki NATO. Opinbert aðildarboð var sent stjórnvöldum landsins í desember 2015. Þá styður NATO Úkraínu, Georgíu og Moldóvu sem búa við vaxandi hernaðarógn frá Rússum sem líta enn á þessi fyrrverandi sovésku lýðveldi sem hluta af áhrifasvæði sínu.

Næsti leiðtogafundur NATO með þátttöku leiðtoga um 65 landa verður haldinn 8. og 9. júlí 2016 í Varsjá, höfuðborg Póllands.

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …