Home / Fréttir / Hryðjuverk í rússneska sjálfsstjórnarhéraðinu Dagestan – gegn kirkjum og gyðingum

Hryðjuverk í rússneska sjálfsstjórnarhéraðinu Dagestan – gegn kirkjum og gyðingum

Minnst fimmtán lögregluþjónar og margir almennir borgarar týndu lífi sunnudaginn 23. júní í rússneska héraðinu Dagestan er haft eftir héraðsstjóranum, Sergej Melokov, í rússneska ríkismiðlinum RIA.

Mannfallið varð síðdegis á sunnudeginum þegar nokkrir vopnaðir menn réðust á rétttrúnaðarkirkju og bænahús gyðinga í bænum Derbent og auk þessa á rétttrúnaðarkirkju og varðstöð lögreglu í Makhachkala, stærsta bæ héraðsins.

Í bænum Derbent er miðstöð gamals samfélags gyðinga.

Á myndskeiði sem birtist á samfélagsmiðlinum Telegram aðfaranótt mánudagsins 24. júní sagði Sergej Melikov að líklega hefðu fleiri en fimmtán lögreglumenn fallið í hryðjuverkaárás sunnudagsins þegar þeir gættu friðar og öryggis í Dagestan með vopn í höndunum.

Þegar myndskeið frá Dagestan eru skoðuð má sjá að komið hefur til skotbardaga milli lögreglu og svartklæddra manna.

Í Derbent var 66 ára gamall rétttrúnaðarprestur drepinn og skömmu síðar stóð kirkja hans í björtu báli. Fréttamenn segja að svo virðist sem um samhæfðar árásir hafi verið að ræða á fleiri en einum stað í Dagestan.

Skömmu eftir hryðjuverkin sögðust yfirvöld héraðsins hafa handtekið alla sem tóku þátt í árásinni í Derbent en þá var enn leitað þeirra sem gerðu árásina í Makhachkala. Yfirvöld gagnhryðjuverka í Rússlandi segja fimm menn grunaða um aðild að illvirkjunum hafi verið drepnir.

Meirihluti íbúa Dagestan er múslímar. BBC segir þetta sjálfstæða hérað í Rússlandi eitt fátækasta svæði Rússlands. Þar hefur hvað eftir annað komið til ofbeldisverka gegn yfirvöldunum og minni háttar hryðjuverka.

Til ársins 2017 börðust rússneskar öryggissveitir við ýmsa vopnaða hópa íslamista í Dagestan og nágrannahéruðunum Tjetjeníu og Ingusjetníu, þau eru einnig sjálfsstjórnarlýðveldi innan Rússlands.

Í október í fyrra þustu mörg hundruð manns út á flugvöllinn í Makhachkala. Mannfjöldinn braust í gegnum öryggisgrindverk og hélt út á flugbraut þar sem flugvél frá Tel Aviv í Ísrael var nýlent.

Rússneskir fjölmiðlar sögðu að fólkið hefði hrópað antisemitísk slagorð og margir hefðu borið fána Palestínu.

Í apríl 2024 voru fjórir útlendingar handteknir í Dagestan vegna grunsemda um að þeir hefðu tekið þátt í að fjármagna skotárásina sem varð meira en 140 manns að bana í tónleikasal í Moskvu.

Heimild: DR.DK

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …