Home / Fréttir / Hrun á rússneska hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaðnum vegna refsiaðgerða Bandaríkjamanna

Hrun á rússneska hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaðnum vegna refsiaðgerða Bandaríkjamanna

43287597_401
Oleg Deripaska

Nýjar refisaðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Rússum sem voru kynntar föstudaginn 6. apríl hafa leitt til hruns á hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði Rússlands. Í fréttum hefur komið fram að aðgerðir Bandaríkjamanna gegn 7 auðmönnum, 17 háttsettum embættismönnum og 12 fyrirtækjum hafi á aðeins nokkrum klukkustundum leitt til tug milljarða dollara taps mánudaginn 9. apríl.

Verðfallið hélt áfram þriðjudaginn 10. apríl og enginn sér fyrir endann á því. Þrýstingur á skuldabréf og rússnesku rúbluna hefur jafnframt aukist vegna hugsanlegra aðgerða vegna eiturefnarásarinnar á Sergei Skripal í Salisbury. Á Bandaríkjaþingi er til umræðu hvort beina eigi spjótum að rússneskum ríkisskuldum.

Fréttaskýrendur segja að einstaklingar og fyrirtæki á bannlista Bandaríkjastjórnar séu ekki einir um að eiga í erfiðleikum vegna refsiaðgerðanna. Vandræðin breiðist um efnahags- og viðskiptalífið til annarra fyrirtækja og banka. Lækkun hlutabréfa bitnar illa á Sherbank, stærsta rússneska bankanum. Rússneska ríkisstjórnin segist hafa stjórn á framvindu mála og hefur lofað fjárhagslegri aðstoð.

Talið er að viðskiptajöfurinn Oleg Deripaska þurfi meiri aðstoð en flestir aðrir. Bandaríkjastjórn hefur þrengt meira að honum en öðrum vegna þess að hann er talinn standa nærri Kremlverjum. Risafyrirtæki hans, Basic Element, sætti harkalegri meðferð.

Sagt er að rúmlega 150.000 manns starfi hjá Basic Element um heim allan. Á vefsíðu fyrirtækisins segir að 15% af íbúum Rússlands séu „beint eða óbeint“ tengd fyrirtækinu. Rússneska álfyrirtækið Rusal, stærsti álframleiðandi heims, er hluti af Basic Element. Sömu sögu er að segja um samsteypuna Russian Machines sem heldur utan um smíði á bílum, flugvélum og járnbrautarlestum.

Bílasmiðjan GAZ í Nizhníj Novgorod er einnig hluti af Russian Machines. Það er hefðbundið rússneskt fyrirtæki og Vladimir Pútín fór á fund starfsmanna GAZ í desember 2017 og tilkynnti að hann byði sig í fjórða sinn fram sem forseti. Hann var endurkjörinn í mars 2018.

Bandaríkjamenn kaupa töluvert af áli frá Rússlandi en meginhluti framleiðslu Rusal fer á heimamarkað í Rússlandi. Óljóst er hvort framleiðsla Basic Element minnkar. Hitt er ljósara að fyrirtækið lendir í vanda vegna erlendra skulda. Í banninu felst að rússneska ríkið getur eitt staðið í skilum fyrir viðskiptaveldi Deripaska og það kann því með tímanum lenda undir stjórn ríkisins.

Erlendir sérfræðingar telja að fall rúblunnar birtist rússneskum neytendum fyrst í hækkun á rafeindatekjum. Viðskiptablaðið Vedmosti segir að verð á snjallsímum og fartölvum hækki líklega um 5 til 10%. Þá hefur lækkun rúblunnar dregið úr ferðalögum Rússa til útlanda.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …