
Frá því að Vladimír Pútín tók að nýju við embætti forseta Rússlands árið 2012 hafa svonefndir „silovikar“, gamlir félagar og samstarfsmenn hjá rússneskum öryggisstofnunum, náð undirtökunum í átökum við frjálslynda innan rússneska stjórnkerfisins.
Alexei Uljukajev, efnahagsmálaráðherra Rússlands, var handtekinn aðfaranótt 15. nóvember, sakaður um að hafa þegið 2 milljónir dollara í mútur. Hann er sagður hæst setti rússneski ráðamaðurinn sem hefur verið handtekinn síðan 1991 þegar Bóris Jeltsín komst til valda við hrun Sovétríkjanna.
Sérfræðingar segja að handtakan sýni að innan rússneska stjórnkerfisins sé sú leið valin að láta saksóknara og lögreglu taka þá „úr umferð“ sem eigi ekki lengur upp á pallborð valdamanna. Efnahagsmálaráðherrann hefði ekki verið handtekinn án vitundar og vilja Pútíns.
Ráðherrann var yfirmaður einkavæðingar í Rússlandi. Hann er sakaður um að hafa „hótað“ að leggja stein í götu Rosneft-olíurisans þegar fyrirtækið fékk 50% hlut í öðru ríkisolíufyrirtæki, Bashneft. Eftir handtöku ráðherrans sem dómari dæmdi í stofufangelsi til 15. janúar leysti Vladimír Pútín hann frá embætti vegna „trúnaðarbrests“. Uljukajev, 60 ára, er talinn til frjálslyndra rússneskra hagfræðinga. Hann varð vara-seðlabankastjóri Rússlands árið 2004 og efnahagsmálaráðherra árið 2013.
Handtaka ráðherrans er að öðrum þræði talin viðvörun til þeirra sem teljast til frjálslyndari arms rússneska stjórnkerfisins en Dmitri Medvedev, forsætisráðherra og fyrrverandi forseti, er talinn forystumaður þessa arms.
Í Le Figaro er haft eftir Mikhail Kroutikíjn hjá ráðgjafafyrirtækinu RusEngergy, að í handtökunni felist viðvörun frá þeim sem í raun stjórni ríkinu gagnvart öllum sem leyfa sér að gagnrýna efnahagsstefnu Pútíns. Skilaboðin til þeirra séu skýr: „Það er fylgst með ykkur og reynið ekki einu sinni að skapa ykkur sérstöðu.“
Kroutikíjn telur að ráðherrann hafi þegið fyrirgreiðslufé fyrir að leyfa kaup Rosnefnt á Bashneft. Þetta séu algengir starfshættir innan rússnesku elítunnar. Með þeim greiði menn fyrir úrlausn mála. Viatsjeslav Volodin, forseti rússneska þingsins, sagði við fréttirnar af handtöku ráðherrans að hún sýndi að allir væru jafnir fyrir lögunum.
Á hátíðisdegi einingar þjóðarinnar, viku fyrir handtöku ráðherrans, var það krafa áköfustu stuðningsmanna Pútíns að „öll völd í efnahagsmálum“ yrðu færð í hendur hans og „frjálslyndum“ yrði ýtt til hliðar.
Elvira Nabjúlina. seðlabankastjóri Rússlands, hefur þegar sætt þungu ámæli aðgerðasinna „almennings“ vegna mikils falls rúblunnar. Ekki er langt um liðið síðan þjóðernissinninn öfgafulli Vladimir Sjirínokvsíj sakaði Alexei Uljukajev um að „fyrirlíta Rússland“ í ljóðum sínum en ráðherrann fyrrverandi yrkir sér til hugarhægðar.
Bent er á að með því að heimila hreinsanir á embættismönnum í ónáð feti Vladimír Pútín slóð Júrís Andropovs, yfirmanns KGB á Sovéttímanum. Andropov fór með æðsta vald Sovétríkjanna í skamman tíma áður en Mikhaíl Gorbatsjov og perestrjoka hans kom til sögunnar. Andropov stjórnaði í krafti baráttu við spillingaröflin. Alexei Makarkin Kremlafræðingur segir að það leiði einfaldlega til sjálfheldu að breyta ekki kerfinu heldur láta nægja að ráða nýja í stað þeirra sem ýtt er til hliðar.
Dmitri Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, segir að handtaka efnahagsmálaráðherrans skapi betra andrúmsloft fyrir fjárfesta í Rússlandi.
Heimild: Le Figaro