
Valdimir Pútín Rússlandsforseti rak óvænt vin sinn til langs tíma úr starfi stjórnanda forsetaskrifstofunnar föstudaginn 12. ágúst. Brottreksturinn er sagður liður í breytingum á æðstu stjórn Rússlands innan Kremlar. Pútín hefur losað sig við gamalreynda samstarfsmenn sína og ráðið yngri menn í stað þeirra, menn sem fara möglunarlaust að fyrirmælum hans segir í The New York Times (NYT) laugardaginn 13. ágúst.
„Pútín hallar sér að þeim sem þjóna honum og fjarlægist þá sem í krafti reynslu sinnar reyna að láta að sér kveða við hlið Pútíns,“ sagði stjórnmálafræðingurinn Tatjana Stanovaja í nýlegri grein hjá Moskvumiðstöð Carnegie-stofnunarinnar. „Hann þarfnast ekki ráðgjafa heldur manna sem framkvæma fyrirskipanir hans með eins litlu umstangi og hægt er.“
Anton E. Vaino (44 ára), næsta óþekktur maður, var skipaður í embætti Sergeis B. Ivanovs (63 ára) sem stjórnandi forsetaskrifstofunnar. Þegar sagt var frá skipun hans á netinu birtust einnig myndir þar sem hann sést ganga á eftir Pútín. Hann er meðal annars sýndur halda á regnhlíf til að veita forsetanum skjól í úrkomu.
NYT segir breytinguna verða þegar atburðir gerast í utanríkis- og innanríkismálum – sumir segja þá setta á svið – sem kunni að beina athygli rússnesku þjóðarinnar frá efnahagsþrengingum vegna lækkunar á olíuverði og viðskiptaþvingana Vesturlanda að ævintýramennsku Pútíns á Krím og í austurhluta Úkraínu.
Miðvikudaginn 10. ágúst sakaði Pútín ríkisstjórn Úkraínu um að leggja á ráðin um hryðjuverkaárásir á Krím-skaga og sagði: „Við látum auðvitað ekki eins og ekkert sé.“ Úkraínuforseti sagði ásakanirnar „fráleitar og kaldhæðnislegar“. Her Úkraínu við Krím var hins vegar skipað að vera við öllu búinn. Föstudaginn 12. ágúst tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytið að nýtt S-400 loftvarnakerfi hefði verið sett upp á Krím-skaga.
Þingkosningar verða í Rússlandi 18. september. Pútín er kappsmál að flokkur sinn, Sameinað Rússland, nái sem bestum árangri.
Anton E. Vaino var aðstoðarmaður Ivanovs en vann áður við fjölmiðla- og prótókollmál innan Kremlar. Nú eins og oft áður er erfitt að ráða í það sem gerist innan veggja Kremlkastala. Upphaflega var afsögn Ivanovs kynnt sem sameiginleg ákvörðun að frumkvæði Ivanons. Hann hverfur nú frá valdamesta embættinu við hlið Rússlandsforseta og verður sérlegur erindreki á sviði samgangna og umhverfismála.
Ivanov er gamall KGB-maður eins og Pútín (63 ára). Þeir unnu saman í sovésku öryggislögreglunni og frá því að Pútín lét að sér kveða í stjórnmálum í St. Pétursborg snemma á tíunda áratugnum hefur Ivanov verið handgenginn honum.
Við afsögn Ivanovs sagði Pútín að hann væri ánægður með störf hans og forystu í þeim málaflokkum sem hann hefði stjórnað. Pútín sagði jafnframt að þeir Ivanov hefðu orðið sammála um það árið 2011 þegar hann varð stjórnandi forsetaskrifstofunnar að hann mundi ekki gegna embættinu lengur en fjögur ár.
Litið er á Ivanov sem harðlínumann í liði Pútíns. Hann var varnarmálaráðherra frá 2001 til 2007. Þegar Pútín varð að láta af forsetaembætti árið 2008, eftir að hafa gegnt því í átta ár samfellt, töldu ýmsir að Ivanov tæki við embættinu af honum.
Rætt var um mannabreytingarnar í Kreml við stjórnmálaskýrandann Stanislav Belkovskíj í útvarpsstöðinni Bergmál Moskvu. Hann sagði:
„Brottrekstur Sergeis Ivanovs er til marks um að Vladimir Pútín vill að nýir menn komi í stað gamalla vina sinna í æðstu stöður innan framkvæmdavaldsins, þetta eru menn úr þjónustuliðinu sama hve titlar þeirra eru glæsilegir og gljáfægðir. Sálrænt er nú þægilegra fyrir Pútín að hafa slíkt fólk í kringum sig – fólk sem frá fyrsta degi lítur á hann sem mikinn foringja og man ekki þá daga þegar Vladimir Pútín var ekki enn orðinn foringinn mikli.“
Breytingarnar hófust í fyrra með brottför Vladimirs L. Jakunins, yfirmanns rússnesku járnbrautanna. Hann móðgaðist síðan svo mjög þegar honum var boðið að lúta svo lágt að setjast í efri deild rússneska þingsins að hann hafnaði boðinu. Pútín hafði lengi haldið hlífiskildi yfir Jakunin þrátt fyrir spillingarorðróm vegna hans. Sagt er að forsetinn hafi að lokum orðið svo þreyttur á stöðugum kröfum um aukið fé til járnbrautanna þrátt fyrir erfiða efnahagskreppu að hann lét forstjóra þeirra fara.
Andrei Beljaninov, annar gamall bandamaður Pútíns frá St. Pétursborg, var neyddur til að segja af sér sem ríkistollstjóri Rússlands í júlí 2016. Afsögnina kynnti hann eftir að starfsmenn FSB, rússnesku öryggislögreglunnar, höfðu gert húsleit heima hjá honum og fundið hundruð þúsunda dollara falda í skókössum.
Í júlí 2016 varð sá einstæði atburður að átök milli löggæslustofnana fóru fram fyrir opnum tjöldum. Menn FSB gerðu leit í skrifstofum rannsóknarnefndarinnar, valdamikillar deildar innan vébanda rússneska ríkissaksóknarans. Þrír æðstu starfsmanna nefndarinnar voru teknir fastir sakaðir um að hafa þegið mútur. Þetta kom sér afar illa fyrir Alexander Bastríjkin ríkissaksóknara, gamlan skólabróður Pútíns úr lagadeildinni.
Til þessa höfðu nánir félagar Pútíns ekki sætt slíkri meðferð fyrir allra augum. Sérfræðingar telja nokkrar ástæður fyrir nýju viðhorfunum til þeirra.
Þar ber fyrst að nefna bágan efnahag ríkisins og þjóðarinnar undanfarin tvö ár. Pútín vilji sýna að stjórn sín beri almennan hag borgaranna fyrir brjósti með nýjum mönnum og hugmyndum.
Bent er á að Pútín vilji forðast mistökin sem Leonid Brezhnev, leiðtogi Sovétríkjanna frá 1964 til 1982, gerði með því að láta embættismannakerfið og þjóðlífið staðna á sama tíma og þar með ýta undir fall Sovétríkjanna.
Það var hlutverk Ivanovs að leggja á ráðin um ímynd stjórnvalda í Kreml, það er forsetans og hans manna. Ýmsir hafa dregið úr ágæti núverandi ímyndar, ekki síst Dmitri A. Medvedev forsætisráðherra.
Nýlega sagði forsætisráðherrann við grunnskólakennara sem kvörtuðu undan launum sínum að þeir skyldu bara fara að stunda viðskipti og síðar sagði hann við eftirlaunaþega á Krím-skaga að engir peningar væru til í því skyni að hækka eftirlaunin.
Sumir stjórnmálaskýrendur segja að Pútín ýti undir ný átök við Úkraínumenn til að binda enda á pólitísku þrástöðuna í austurhluta Úkraínu sér í vil. Með því kunni honum að takast að skapa þjóðarsamstöðu að baki sér þrátt fyrir óánægjuna með stöðu efnahagsmála.
Þá er bent á að við val á nýjum mönnum til mikilvægra stjórnmálastarfa eins og héraðsstjóra sé Pútín gjarnt að líta til fyrrverandi lífvarða sinna og njósnara.
Þegar Jeveníj Zinistsjev var settur héraðsstjóri í Kaliningrad í júlí vakti athygli og undrun blaðamanna að á eldri myndum mátti sjá hann sem lífvörð forsetans.
Í fyrra endurskipulagði Pútín öryggiskerfi ríkisins með því að koma á fót öflugu þjóðvarðliði undir beinni stjórn forsetans og setti fyrrverandi lífvörð sinn, Viktor V. Zolotov, yfir það sem hershöfðingja. Nýi ríkistollstjóri Rússlands, Vladimir Bulavin, var áður aðstoðarforstjóri FSB.
„Hershöfðingi úr varnarmálaráðuneytinu eða FSB spyr ekki ónauðsynlegra spurninga eða lítur á Pútín með augum fyrrverandi vinar sem enn væntir sérmeðferðar,“ segir Stanavaja frá Moskvumiðstöð Carnegie í grein sinni.
Heimild: NYT