Home / Fréttir / Hrakfarir Rússahers við flatbotna fljótabrú

Hrakfarir Rússahers við flatbotna fljótabrú

Flatbotna fljótabrýr Rússa sem Úkraímuher eyðilagði.

Rússneski herinn varð illa úti þegar Úkraínumenn réðust á flatbotna brú hersins í austurhluta Úkraínu og eyðilögðu hana. Embættismenn í Úkraínu og Bretlandi segja að vandræðin vegna brúarinnar séu enn eitt dæmið um að Rússar hafi ekki lengur stjórn á gangi stríðsins.

Flugherstjórn Úkraínu birti föstudaginn 13. maí ljósmyndir og myndskeið af sundursprengdri flatbotna brú, hún hefði verið lögð yfir Siverskíj Donets-fljótið í Bilohorivka. Á myndunum sjást einnig nokkrir ónýtir eða laskaðir bryndrekar rússneska hersins. Úkraínumenn segjast hafa eyðilagt að minnsta kosti 73 skriðdreka og önnur vígtól í tveggja daga átökum fyrr í vikunni. Herstjórnin sagði að liðsmenn hennar hefðu „drekkt rússneska hernámsliðinu“.

Breska varnarmálaráðuneytið sagði að Rússar hefðu misst „umtalsverðar brynvarðar hreyfanlegar einingar“ að minnsta kosti eins herfylkis sem gerði árás. Í rússnesku herfylki (e. battalion tactical group) eru um 1.000 hermenn.

„Að fara yfir fljót á átakasvæði er mjög áhættusamt og segir mikið um þrýstinginn sem hvílir á rússneskum herforingjum vegna kröfunnar um að aðgerðir þeirra í austurhluta Úkraínu skili árangri,“ sagði breska varnarmálaráðuneytið í daglegri skýrslu sinni um stríðið.

Bretinn Justin Crump, fyrrverandi skriðdrekaforingi, sem starfar nú sem öryggisráðgjafi, sagði að hrakfarirnar í Úkraínu hefðu neytt ráðamenn

í Moskvu til að falla frá upphaflegum innrásar-markmiðum sínum. Hann sagði að Rússar hefðu orðið að senda hersveitir á vígvöllinn næsta fyrirvaralaust og án þess að liðsmenn þeirra fengju tækifæri til að æfa saman.

„Þetta er engin hraðferð. Við stöndum því frammi fyrir stríði í sumar, að minnsta kosti. Ég held að Rússum sé vel ljóst að þetta mun taka langan tíma,“ sagði hann.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …