Home / Fréttir / Hraði kjarnorkuvæðingar kínverska hersins eykst

Hraði kjarnorkuvæðingar kínverska hersins eykst

Unnið við skoptalla meðaldrægu kínversku flaugarinnar DF-26 sem dregur með kjarnaodda til bandarísku Kyrrahafseyjarinnar Guam frá meginlandi Kína.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið birti miðvikudaginn 3. nóvember árlega skýrslu sína um hernaðarmátt Kínverja. Þar segir að kínversk hernaðarstefna geri ráð fyrir að þjóðin standi jafnfætis Bandaríkjamönnum árið 2049 eða hafi komist fram úr þeim að því er varðar hnattræn áhrif og vald, hafi ýtt bandarískum bandalögum og samstarfi um öryggismál á Indlandshafs–Kyrrahafssvæðinu til hliðar og stokkað upp skipan heimsmála á þann veg að hún falli betur að forræðisstjórn Kína og þjóðarhagsmunum.

Skýrslan um hernaðarmátt Kína – The China Military Power Report – er lögð fyrir Bandaríkjaþing til fróðleiks um framvindu kínverskra hermála. Nýjasta útgáfan fjallar um árið 2020.

Á árinu 2020 var haldið áfram að auka hernaðarútgjöld Kínverja árið 2021 eins og gert hefur verið ár frá ári í 20 ár. Nú á að auka hernaðarútgjöldin um 6,8%. Aðeins Bandaríkjamenn verja hærri fjárhæðum til hermála en Kínverjar. Jafnframt segir bandaríska varnarmálaráðuneytið að leynd hvíli yfir einstökum útgjaldaliðum og því séu kínversku útgjöldin hærri en opinberar tölur sýna.

Um 975.000 hermenn eru í virkum sveitum Kínverja. Þeir eiga stærsta herflota heims með um 355 skipum og þriðja stærsta flugherflota með 2.800 flugvélum.

Líklegt er talið að Kínverjar nái því markmiði árið 2030 að ráða yfir 1.000 kjarnaoddum. Meiri hraði er á kjarnorkuvæðingu kínverska hersins en bandaríska varnarmálaráðuneytið spáði í skýrslu sinni árið 2020.

Bandaríkjamenn áttu um 3.750 kjarnaodda í september 2020. Þegar flestir kjarnaoddar voru í bandarískum vopnabúrum árið 1967 voru þeir 31.255. Þeim hefur fækkað um 83% frá 1989 þegar þeir voru 22.217.

Kínverjar vinna að þróun og smiði langdrægra eldflauga og er talið að „minnst þrjú“ skotsvæði fyrir palla undir langdrægar flaugar séu á framkvæmdastigi og á þeim verði hundruð skotpalla.

Þá hefur athygli annarra þjóða einnig beinst að meðaldrægri kínverskri eldflaug af gerðinni DF-26. Með henni má skjóta venjulegum sprengjum eða kjarnorkusprengjum. Fyrsta tilraun með flaugina var gerð árið 2019. Hún er kölluð „Guam-flaugin“ vegna þess að hún dregur til bandarísku Kyrrahafseyjarinnar Guam frá meginlandi Kína.

Í fyrra sáust fyrstu ofurhljóðfráu vopn Kínverja, Þar var DF-17 ofurhljóðfráa svifflaugin sem nota má til að flytja meðaldræga eldflaug. Ofurhljóðfráar flaugar ná að minnsta kosti fimmföldum hraða hljóðsins.

Bandaríkjamenn eiga ekki nein ofurhljóðfrá vopnakerfi en eru að þróa eitt sem nota má til að komast um 800 km á tíu mínútum. Flaugar sem Bandaríkjamenn ráða nú yfir þurfa um eina klukkustund til að komast þessa vegalengd.

 

Heimild: Stars and Stripes

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …