Home / Fréttir / Ítalía: Stjórnlagakreppa magnast með utanþingsstjórn

Ítalía: Stjórnlagakreppa magnast með utanþingsstjórn

 Carlo Cottarelli, nýr forsætisráðherra Ítalíu.
Carlo Cottarelli, nýr forsætisráðherra Ítalíu.

Í leit að lausn eftir að forsætisráðherraefni uppnámsflokkanna á Ítalíu, Giuseppe Conte, sagði sig frá verkefninu fól Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, mánudaginn 28. maí, hagfræðingnum Carlo Contarelli að mynda utanþingsstjórn. Ákvörðun forsetans er illa tekið af leiðtogum Fimmstjörnu hreyfingarinnar (M5S) og Bandalagsins sigurvegaranna í kosningunum 4. mars 2018.

Forsetinn lagði að Contarelli að honum tækist að mynda ríkisstjórn og leggja fram fyrir lok desember frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019. Njóti ríkisstjórnin ekki stuðnings þingmanna ber henni að sjá til þess að hjól ríkiskerfisins snúist. Carlo Contarelli tilkynnti að gengið yrði til kosninga að nýju í síðasta lagi í byrjun árs 2019.

Carlo Cottarelli er 64 ára með hagfræðipróf frá Siena í Toscana á Ítalíu og síðan frá London School of Economics. Hann vann í sex ár á fjármála- og peningamálasviði Seðlabanka Ítalíu og varð síðan háttsettur innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) þar sem hann ávann sér viðurnefnið Hr. Skæri þegar hann fékk það hlutverk að fara yfir útgjaldaáform ríkisstjórnar Enricos Letta (mið-vinstri) árið 2013. Eftirmaður Letta, Matteo Renzi, tilnefndi hann fulltrúa Ítalíu hjá AGS þar sem hann fór með stjórn mála sem sneru að Ítalíu, Grikklandi og Möltu auk annarra landa áður en hvarf frá sjóðnum í október 2017. Síðan hefur hann verið yfirmaður Eftirlitsstofnunar opinberra útgjalda og í krafti þess embættis varaði hann við kostnaði af efnahagsstefnunni sem boðuð var í stjórnarsáttmála M5S (vinstri flokks gegn kerfinu) og Bandalagsins (langt til hægri). Hann sagði í blaðaviðtali að kostnaðurinn mundi nema 110 til 115 milljörðum evra.

Talið er að með því að fela Cottarelli stjórnarmyndun hafi forseta Ítalíu tekist að skapa ró á mörkuðum og draga úr óttanum sem greip um sig þegar fyrir lá tillaga um að skipa evru-andstæðing fjármála- og efnhagsmálaráðherra. Forsetinn hafnaði tillögunni og kallaði þá yfir sig reiði uppnámsflokkanna tveggja sem segja fulltrúa forsetans ekki annað en handbendi auðmanna og stórbanka. Cottarelli er að mati Matteos Salvinis, leiðtoga Bandalagsins, fulltrúi alþjóðlegra fjármagnseigenda. Luigi Di Maio, leiðtogi M5S, segir Cottarelli einn sérfræðinganna sem hafi lagt á ráðin um niðurskurð á sviði heilbrigðis-, mennta- og landbúnaðarmála.

Eftir að stjórnarsáttmáli uppnámsflokkanna tveggja birtist lá Cottarelli ekki á skoðun sinni í samtölum við alla fjölmiðla og varaði eindregið við að sáttmálanum yrði hrundið í framkvæmd vegna kostnaðarins sem honum fylgdi, segir franska blaðið Le Figaro.

Í breska blaðinu The Guardian er minnt á að Sergio Mattarella forseti sé stjórnlagafræðingur frá Sikiley sem hafi ákveðið að snúa sér að stjórnmálum eftir að Mafían myrti bróður hans sem var í stjórnmálaforystu á eyjunni. Sikileyingar segi að hann láti ekki forystumenn M5S og Bandalagsins hræða sig.

Í blaðinu er því velt upp hvers vegna Luigi di Maio (31 árs) og Matteo Salvini kjósi að vega svo hart að Mattarrella og krefjast þess meðal annars að hann verði dreginn fyrir ríkisrétt. Prófessor við Luiss-háskóla sagði að það félli að popúlisma uppnámsflokkanna – leiðtogarnir væru í ætt við Donald Trump og Nigel Farage í Bretlandi – að láta reyna á stofananvaldið og útmála allar stofnanir sem hluta af „elítu“ landsins. Það yrði þó ekki auðvelt að sannfæra neinn um að Mattarella væri hluti elítunnar – hann kæmi frá Sikiley.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …