
Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Borgarastríðið í Jemen hefur nú staðið yfir í tæp þrjú ár og samkvæmt Sameinuðu þjóðunum stendur engin þjóð frammi fyrir meiri hörmungum en Jemenar nú um stundir. Tímaritið The Economist fjallaði nýlega um átökin í landinu og er þessi pistill að mestu leyti reistur á umfjöllun þess.
Forsaga átakanna er löng. Í upphafi 20. aldar réð Ottomanveldið Jemen en í kjölfar þess að Bretar náðu fótfestu þar, sem auðveldaði þeim að halda yfirráðum sínum yfir Indlandi, var landinu skipt í Norður – og Suður-Jemen árið 1904. Þegar Ottomanveldið hrundi árið 1918 varð Norður-Jemen sjálfstætt en Bretar héldu yfirráðum yfir suðurhlutanum til ársins 1967.
Þrátt fyrir að samskipti ríkjanna tveggja væru oft erfið höfðu þau á stefnuskránni að sameinast og það gekk eftir árið 1990. Var völdum skipt á milli norðan- og sunnanmanna á þann hátt að Ali Abdullah Saleh, sem ráðið hafði ríkjum í norðrinu, varð forseti en varaforsetaembættið féll í skaut forseta Suður-Jemen, Ali Salem al Beidh. Samvinna þeirra varð hins vegar skammvinn því árið 1993 sagði Ali al Beidh af sér og í kjölfarið hófst borgarastríð í Jemen. Í framhaldinu náði Ali Saleh völdum í öllu landinu. Stjórn hans einkenndist af mikilli spillingu, talið er að Saleh og fylgismenn hans hafi stolið milljörðum dollara úr ríkiskassanum. Miðstjórnarvald var veikt og í raun er landinu ennþá að mestu stjórnað af ættbálkum.
Meðlimum Zaydis trúarhópsins, en þeir eru hluti af sjíta fylkingunni innan íslamstrúar, fannst þeir sniðgengnir á stjórnarárum Alis Salehs. Þetta leiddi til þess að einn þeirra, Hussein Badruddin al-Houthi, stofnaði Houthi-flokkinn sem hóf vopnaða baráttu gegn stjórnvöldum sem hann sakaði m.a. um of mikinn vinskap við Bandaríkjamenn og Sáda í nágrannaríkinu Sádi-Arabíu. Sádar eru súnníta-múslímar hafa deilt við sjíta-múslima frá því að Múhammed spámaður lést árið 632 e.Kr.
Umrótið sem varð í Jemen í arabíska vorinu styrkti stöðu Houthi-flokksins því bæði náði hann undir sig miklum landsvæðum á þessu tímabili og svo leiddi ólgan í samfélaginu til þess að Ali Saleh fór frá völdum árið 2012 og Abdrabbuh Mansur Hadi varaforseti tók við stjórnartaumunum. Houthi-menn voru þó ekki ennþá sáttir við sinn hlut og því grófu þeir stríðsöxina við Ali Saleh, sem taldi sig eiga harma að hefna, og saman hertu þeir sókn sína gegn stjórnvöldum.
Árangur Houthi-flokksins skaut Sádum skelk í bringu því Houthi-hópurinn er studdur af Írönum sem er helsta óvinaþjóð Sáda í Mið-Austurlöndum enda sjítar. Því ákváðu Sádar árið 2015 að ráðast á Jemen ásamt bandamönnum sínum til að ganga á milli bols og höfuðs á Houthi-sinnum. Þetta hefur ekki gengið eftir og er styrjöldin í pattstöðu en víglínan hefur í raun lítið breyst síðastliðið ár. Báðir stríðsaðilar hafa framið óhæfuverk á vígvellinum og er talið að yfir 10 þúsund Jemenar hafi verið drepnir í þeim.
Þessar tölur segja þó alls ekki alla söguna um hörmungarnar Jemena nú um stundir. Tíð átök síðustu áratuga og óstjórn hafa gert það að verkum að Jemen er fátækasta land Mið – Austurlanda. Lengi getur hins vegar vont versnað og nú er svo komið að mennta- og heilbrigðiskerfi landins eru ónýt. Einnig er vatnsorkukerfi þess mjög illa farið. Þetta gerir það að verkum að Jemenar standa frammi fyrir hungursneyð auk þess sem kólerufaraldur hefur gengið yfir landið. Að mati Sameinuðu þjóðanna þurfa um ¾ hlutar þeirra 28 milljóna sem búa í Jemen á hjálp að halda.
Vesturlönd hafa ekki þrýst nægilega mikið á deiluaðila að slíðra sverðin. Þetta má rekja til þess að almenningur í þessum ríkjum veit varla af stríðinu, hvað þá um hvað átökin snúast, og stjórnvöld í Washington og annars staðar styðja Sáda í valdatafli sínu við Írani í heimshlutanum. Þetta er skammsýni að mati The Economist og nefnir tímaritið nokkrar ástæður fyrir því hvers vegna þessi ríki eigi að reyna að stöðva átökin. Mannúðarsjónarmið eru efst á listanum en einnig er minnst á að Vesturveldin megi einfaldlega ekki við því að horfa upp á enn eitt ríkið gliðna í sundur (og breytast í það sem á ensku er kallað failed state) þar sem alls kyns öfga- og hryðjuverkahópar gætu fundið sér skjól og dafnað. Nú þegar hefur Al-Kaida náð fótfestu í landinu. Þessir hópar væru ekki síst ógn við siglingar í þessum heimshluta, líkt og árásin á bandaríska herskipið USS Cole í Aden árið 2000 sýndi, og þá sérstaklega við umferð um Súes-skurðinn því aðkoma að honum að sunnan er um sund sem liggur að Jemen.
Almenningur og stjórnmálamenn á Vesturlöndum þurfa þó að gera sér grein fyrir því að jafnvel þó að þessi ríki myndu reyna að stilla til friðar er ekkert víst að þau gætu það. Átökin má rekja til gamalla deilna og deiluaðilar eru margir sem þýðir að deilurnar eru mjög snúnar. Ýmsir hagnast líka á átökunum s.s. stríðsherrar í landinu og ríki sem selja stríðandi fylkingum vopn og skortir því hvata til þess að vinna að friði. Þetta vandamál er því langt frá því að vera úr sögunni.