Home / Fréttir / Hörmungar vegna hernaðar í Líbíu

Hörmungar vegna hernaðar í Líbíu

ESB-flota verður nú beitt gegn sölu vopna til Líbíu.
ESB-flota verður nú beitt gegn sölu vopna til Líbíu.

 

Arabíska vorið sem var mótmælaalda almennings í ríkjunum gegn spilltum stjórnvöldum hófst árið 2011. Í ágúst 2011 var Muammar Gaddafi, einræðisherra í Líbíu frá árinu 1969, steypt af stóli. Vonir um að byltingin væri upphaf betri tíma hafa því miður ekki gengið eftir. Nýlega var fjallað um stöðu mála í Líbíu af Defense News og European Council of Foreign Relations.

Eftir að Gaddafi missti völdin í Líbíu braust út borgarastyrjöld þar. Árið 2012 tókst að stilla til friðar og tók bráðabirgðastjórn við völdum. Kosningar voru haldnar árið 2014 en bráðabirgðastjórnin viðurkenndi ekki nýkjörna þingið. Hófst borgarastyrjöldin þá aftur. Þingmenn flúðu frá höfuðborginni Trípólí til Tobruk sem er hafnarborg við landamæri Egypta­lands. Í Trípólí tók þjóðstjórn við völdum árið 2016 og er hún viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Hersveitir þjóðstjórnarinnar berjast við Khalfia Haftar sem stjórnar sveitum þingsins í Tobruk. Í dag ráða hersveitir Haftars bróðurhluta Líbíu. Trípólí og nokkur landsvæði nálægt borginni eru undir stjórn þjóðstjórnarinnar. Svæði í suðurhluta landsins eru á valdi ýmissa stríðsherra.

Irini-áætlunin

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa reynt að stilla til friðar í Líbíu. Héldu SÞ í samvinnu við þýsk stjórnvöld ráðstefnu um framtíð landsins í Berlín 19. janúar síðastliðinn. Þangað var boðið þeim ríkjum sem eiga hagsmuna að gæta í Líbíu.   Í lokaályktun ráðstefnunnar var m.a. ítrekað að framfylgja yrði vopnasölubanni SÞ frá árinu 2011 á landið.

Evrópusambandið (ESB) tók að sér að hrinda ákvörðunum Berlínar-fundarins í framkvæmd, það er vopnasölubanninu frá 2011. Var sú leið farin að endurskipuleggja flotaaðgerð sem bandalagið hafði staðið fyrir á Miðjarðarhafi síðan 2015. Markmið hennar var að reyna að stöðva starfsemi þeirra sem smygla flóttamönnum til Evrópu. Nú skyldi athygli þess í stað beint að Líbíu. Heitinu á flotaverkefni ESB var breytt úr Sophie í Irini-áætlunina. Irini þýðir friður á grísku. Áætluninni var hundið í framkvæmd 1. apríl 2020.  Áætlað er að verkefnið standi yfir í eitt ár.  Aðgerðastjórnin er í Róm og undir forystu ítalsks flotaforinga.

Flotadeild ESB á einnig að hindra ólöglega olíusölu frá Líbíu og þjálfun flota og standgæslu landsins er einnig á dagskránni.  Flotanum er einnig falið að grafast fyrir um starfsemi þeirra sem smygla fólki frá Afríku til Evrópu svo að stöðva megi glæpaiðjuna.  Floti ESB styðst við flugvélar, dróna og gervihnetti til þess að sinna verkefnunum.

Á það er bent að flotadeild dugar skammt til að stöðva vopnaflutning til Líbíu. Hann sé að mestu stundaður á landi frá Egyptalandi eða með flugvélum frá Sameinuðu furstadæmunum, aðeins Tyrkir noti sjóleiðina til að aðstoða skjólstæðinga sína í Líbíu.

Staða mála í Líbíu

Utanríkismálastjóri ESB, Josep Borrell, sagði er hann ýtti Irini-áætluninni úr vör að friður yrði aðeins í Líbíu ef stríðandi fylkingar teldu sig hafa hag af friðarviðræðum. ESB byggi yfir hernaðarmætti sem það væri tilbúið að nota til að binda enda á borgarastríðið.  Síðustu daga hefur það færst í aukana. COVID-19 faraldurinn hægir ekki á hernaðarátökum í Líbíu. Þá magnast spenna vegna ágreinings ESB og Tyrkja um hvert stefna skuli í Líbíu.

Þjóðstjórnin telur ESB leggja Haftar lið gegn sér og hún hallar sé að Tyrkjum og Rússum sem standa að nokkru saman í Líbíu. Þrátt fyrir að ESB ætli sér nú stærri hlut við að stilla til friðar í Líbíu er líklegt að enn verði barist þar með vopnum sem SÞ hafa bannað.

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …