Home / Fréttir / Hörmungar í þriðja heiminum vegna kórónufaraldursins

Hörmungar í þriðja heiminum vegna kórónufaraldursins

gettyimages-1199224545

Ómögulegt er að segja til um þróun COVID-19 faraldursins sem núna gengur yfir heimsbyggðina.  Eitt er því miður öruggt er að margir munu ekki lifa hann af.  Faraldurinn sem hófst í Kína undir lok 2019 geisar nú í Evrópu og Bandaríkjunum.  Ríki nota ýmsar aðferðir til þess að reyna að vinna bug á honum.  Það auðveldar þeim baráttuna að þjóðrinar eru ríkar.  Ekki eru allar þjóðir svo lánsamar líkt og vikuritið The Economist minnir á í leiðara í nýjasta tölublaði sínu.  Þar er fjallað um hættuna sem steðjar að fátækum löndum vegna faraldursins.

Fyrst er nefnt að óljóst er hversu útbreiddur sjúkdómurinn er í ríkjunum.  Fram kemur að opinberar tölur um fjölda sýktra í Afríku og Indlandi séu afar lágar en lítið sé að treysta þeim.  Yfirvöld í ýmsum fátækum löndum hafa gripið til svipaðra aðgerða og Vesturlönd og Kína til að reyna að vinna bug á COVID-19.  Óvíst er að þær skili miklum árangri.  Þeir sem búa í þéttbýlum fátækrahverfum geta ekki haldið sig nógu langt frá öðru fólki.  Hreinlæti er ábótavant vegna skorts á hreinu vatni.

Þrátt fyrir talsverða reynslu af farsóttum eru vanmáttug heilbrigðiskerfi landanna illa í stakk búin til að takast á við faraldurinn.  Útgjöld til heilbrigðismála í Pakistan eru 1/200 af því sem þau eru í Bandaríkjunum.  Staða mála í Úganda sést best á því að þar í landi eru fleiri ráðherrar en gjörgæslurými.

Ríkin hafa ekki heldur efnahagslegt bolmagn til þess að hjálpa þegnum sínum líkt og Vesturlönd.  Þetta kemur illa við marga þegar margvíslegur iðnaður, s.s. ferðaþjónusta, berst í bökkum vegna lítillar eftirspurnar.  Ekki bætir úr skák að margir átta sig ekki á vandamálinu.  Markaðir í Myanmar (Búrma) eru ennþá fullir af fólki.  Forseti Tansaníu kennir djöflinum um veiruna.  Svo eru teikn á lofti um að einræðisherrar líti á faraldurinn sem tækifæri til að herða enn tök á landsmönnum.

Vonarglætu er þó að finna.  Í fátæku ríkjunum er ungt fólk í miklum meirihluta.  COVID-19 virðist ekki leggjast jafn þungt á þann aldurshóp og aðra.  Einnig skiptir máli að mikið af íbúum landanna býr í dreifbýli og þar dreifist veiran síður en í stórborgum.  Því miður er þó ekki allt sem sýnist hvað þetta varðar.  Unga fólkið í ríkjunum þjáist af vannæringu og ýmsum sjúkdómum líkt og berklum og alnæmi.  Ónæmiskerfi þess er því veikburða.  Að sama skapi er líklegt að dreifbýlisbúar muni fá veiruna á endanum.

Vegna þess hve staðan lítur illa út í fátækum ríkjum er mikilvægt að Vesturlönd geri það sem þau geta til þess að aðstoða þau í baráttunni við COVID-19.  Minnst er á að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og G-20 hópurinn séu að undirbúa neyðaraðstoð.  Greinarhöfundur The Economist hvetur Vesturlönd til þess að vera rausnarleg enda hafi þau sjálf hag af því.  Hann minnir á að Kína veiti ríkjunum nú þegar aðstoð.  Geri Vesturlönd ekki slíkt hið sama muni áhrif þeirra í ríkjunum minnka.  Svo má ekki gleyma því að verði sjúkdómnum leyft að berast stjórnlaust milli manna í þessum ríkjum sé aðeins tímaspursmál þar til hann stingur sér aftur niður í Evrópu og Norður – Ameríku.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …