Home / Fréttir / Hörð hríð gerð að May – ætlar að berjast til þrautar fyrir Brexit

Hörð hríð gerð að May – ætlar að berjast til þrautar fyrir Brexit

 

Theresa May á blaðamannafundinum 15. nóvember.
Theresa May á blaðamannafundinum 15. nóvember.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, sætir harðri gagnrýni í eigin ríkisstjórn og þingflokki fyrir skilnaðarsamkomulagið við ESB um úrsögn Breta úr sambandinu (Brexit). May kynnti niðurstöðu viðræðnanna við ESB á þingi og blaðamannafundi fimmtudaginn 15. nóvember. Hún segist ætla að berjast til þrautar í málinu og leggja það fyrir neðri deild þingsins eftir að leiðtogaráð ESB hefur fjallað um það sunnudaginn 25. nóvember.

Nokkrir ráðherrar yfirgáfu ríkisstjórn May 15. nóvember, daginn eftir að ríkisstjórnin samþykkti tillögu hennar um skilnaðarleiðina við ESB. Þá boða hörðustu Brexit-sinnar í þingflokki íhaldsmanna vantraust á May sem flokksleiðtoga og þar með forsætisráðherra.

Fyrir blaðamannafund May síðdegis 15. nóvember töldu ýmsir fréttaskýrendur og álitsgjafar að hún kynni að boða afsögn sína. Það gerði hún ekki heldur sagðist ætla að berjast til þrautar. Hún sagði að það sem hún boðaði sem Brexit tæki mið af því sem breska þjóðin hefði sett í forgang.

Í niðurstöðunni fælist varðstaða um bresk störf, viðskipti, öryggi og brothættan frið á Norður-Írlandi, sagði hún.

Meðal ráðherranna sem báðust lausnar var Brexit-ráðherrann, Dominic Raab. Hann var aðal-samningamaður Breta, að minnsta kosti að nafninu til. Við afsögn sína sagði hann: „Samviska mín leyfir ekki að ég styðji það sem segir í samkomulagi okkar við ESB.“ Sagt er að hann hafi átt bágt með að sætta sig við að það var í raun Olly Robbins, embættismaður handgenginn May, sem leiddi viðræðurnar til lykta.

Brexit-harðlínumenn í Íhaldsflokknum segja að niðurstaða May sé ekki í samræmi við það sem meirihlutinn vildi í Brexit-atkvæðagreiðslunni sumarið 2016. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði að niðurstöðuna aðeins „hálf-bakaða“ og flokkur sinni mundi greiða atkvæði gegn henni.

 

Heimild: DW

 

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …