Home / Fréttir / Hörð átök milli ESB-þingsins og ESB-framkvæmdastjórnarinnar vegna mannaráðningar

Hörð átök milli ESB-þingsins og ESB-framkvæmdastjórnarinnar vegna mannaráðningar

Jean-Claude Juncker og Martin Selmayr.
Jean-Claude Juncker og Martin Selmayr.

Innan valdakerfis ESB í Brussel skiptir staða yfirmanns skrifstofu framkvæmdastjórnar ESB, það er aðalritarastarf ESB, miklu. Eftir að skipt var um aðalritara 21. febrúar 2018 hefur komið til harðra deilna milli framvkæmdastjórnarinnar og ESB-þingsins um hvernig staðið var að málum. Þriðjudaginn 27. mars situr Günther Öttinger, mannauðsstjóri ESB, fyrir svörum vegna málsins á fundi ESB-þingnefndar í Brussel.

Vegna fundarins sendu þingmenn 134 spurningar til framkvæmdastjórnarinnar og svar hennar hefur enn aukið á reiði þingmanna sem finnst talað niður til sín þegar hvatt er til þess að „Brussel-blaðran“ hætti að draga í efa réttmæti þess hvernig staðið var að skipuninni. Svarið er 80 bls. að lengd og er meginniðurstaða þess að „allar lagareglur voru virtar“.

Á fundi framkvæmdastjórnar ESB 21. febrúar tilkynnti Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, að yfirmaður skrifstofu sinnar, Martin Selmayr, yrði vara-aðalritari framkvæmdastjórnarinnar. Aðeins Öttinger og Frans Timmermans, fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, vissu að þetta myndi gerast á fundinum.

Selmayr var ekki nema nokkrar mínútur vara-aðalritari eða þar til aðalritarinn, Alexander Italianer, sagði af sér og þá lagði Juncker til að Selmayr tæki við af Italianer.

Framkvæmdastjórnin segir að í „öllu tilliti“ hafi verið farið „að reglum“. ESB-þingmenn eru ekki sama máli og sagði Françoise Grossetete, mið-hægri þingmaður frá Frakklandi, til dæmis að ráðningin á Selmayr minnti helst á „dulúðina innan Kommúnsitaflokks Kína“.

ESB-þingmaðurinn Sophie in ‘t Veld sagði: „Framkvæmdastjórnin verður að gera upp við sig hvort sé mikilvægara: trúverðugleiki framkvæmdastjórnarinnar eða starfsframi Selmayrs. Þetta tvennt er ósamrýmalegt.“

Að baki óánægjunnar er reiði í garð Selmayrs vegna framgöngu hans og hlutverks – hann hefur verið kallaður Rasputin eða „skrímslið“ til að lýsa valdi hans og óbilgirni hans. Þá sætta þingmenn sig illa við leyndarhyggjuna innan framkvæmdastjórnarinnar vegna ýmissa staðreynda í tengslum við töku ákvörðunarinnar.

Í svarinu til ESB-þingmannanna leggur framkvæmdastjórnin áherslu á að ákvörðunin hafi verið tekin „einróma“ og aðferðin hafi verið sú sama og þrisvar sinnum áður síðan árið 2000.

Framkvæmdastjórnin staðfestir að Selmayr hafi verið eini umsækjandinn um vara-aðalritarastarfið, hinn frambjóðandinn dró sig í hlé. Það var varamaður Selmayrs í skrifstofu Junckers, Clara Martinez Alberola. Þá hafi Italianer haldið afsögn sinni leyndri þar til til fundarins kom. Þegar Juncker skipaði Italianer árið 2015 sagði hann Juncker að hann mundi segja af sér 1. mars 2018 og Juncker skýrði Selmayr frá þessu.

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …