
Mótmælendur með hulið andlit áttu í átökum við lögreglu á götum Barcelona föstudaginn 18. október á fimmta degi mótmæla vegna fangelsunar á leiðtogum aðskilnaðarsinna sem vilja sjálfstæði Katalóníu frá Spáni.
Hópur fólks kastaði grjóti og dósum á óeirðalögreglu, drógu stóra ruslagáma út á miðja aðalgötu borgarinnar og báru eld að þeim. Með lögreglubílum var árangurslaust reynt að þröngva fólki til að halda sig á gangstéttum.
Samhliða þessu voru víða önnur fjöldamótmæli víða til að lýsa andúð á löngum fangelsisdómum yfir sjálfstæðisforingjum Katalóníu – voru þau mótmæli friðsamleg.
Farið var í mótmælagöngur um alla Katalóníu föstudaginn 18. október undir fánum sjálfstæðissinna og hrópaði fólkið: Frelsið pólitíska fanga!
Þá efndu verkalýðsfélög sjálfstæðissinna til almenns verkfalls um alla Katalóníu.
Þúsundir ungra mótmælaenda hafa átt í útistöðum við spænsku lögregluna undanfarna fjóra daga eftir að Hæstiréttur Spánar dæmdi 12 katalónska sjálfstæðissinna fyrir að hvetja á ólögmætan hátt til sjálfstæðis í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum. Níu voru sakfelldir fyrir uppreisnaráróður og fengu níu til 13 ára dóma.
Mótmælin hafa harnað dag frá degi. Miðvikudaginn 16. október var kveikt í 400 ruslagámum á götum Barcelona að sögn talsmanns borgarstjórans. Þá taldi hann að borgaryfirvöld hefðu orðið fyrir 1,5 milljón evra tjóni.