Home / Fréttir / Hollendingar ræða samning við Úkraínu – framkvæmdastjórn ESB framkvæmir samninginn

Hollendingar ræða samning við Úkraínu – framkvæmdastjórn ESB framkvæmir samninginn

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.

Andstaða Hollendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu við viðskipta- og samstarfssamning ESB og Úkraínu getur orðið til þess að langan tíma taki að ræða breytingar á samningnum segir Matt Rutte, forsætisráðherra Hollands. Framkvæmdastjórn ESB stefnir hins vegar að því að hefja framkvæmd samnings í apríl með afnámi áritunarskyldu í vegabréf Úkraínumanna sem vilja ferðast inn á Schengen-svæðið.

„Það kann að taka mánuði að finna lausn,“ sagði ráðherrann við hollensku fréttastofuna ANP föstudaginn 8. apríl. Þessi staða væri einsdæmi og margir þyrftu að koma að málinu til að greiða úr flækjunni sem hefði myndast.

Alls lýsti 62% andstöðu við samninginn en 38% studdu hann í atkvæðagreiðslu 6. apríl, þátttakan var 32% sem dugar til að atkvæðagreiðslan er gild.

Niðurstaðan er ekki bindandi fyrir hollensku ríkisstjórnina og á þingi styður mikill meirihluti samninginn við Úkraínu. Rutte hefur hins vegar sagt að hann geti ekki haft hina eindregnu afstöðu kjósenda að engu.

Samningurinn hefur verið fullgiltur af öðrum ESB-ríkjum og hann tók gildi í janúar 2016. Hollenska þingið mun taka málið fyrir að nýju í næstu viku. Rutte segir að þingmenn virði niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Meðal þess sem samningurinn snýst um er réttur Úkraínumanna til að ferðast án áritunar inn á Schengen-svæðið.

Reuters-fréttastofan sagði mánudaginn 11. apríl að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefði lofað Petró Porosjenkó Úkraínuforseta að áformum um afnám árirtunarskyldu yrði hrundið í framkvæmd í apríl hvað sem liði afstöðu Hollendinga.

„Sumir kynnu að halda að við hefðum vilja Hollendinga að engu en við verðum að standa við orð okkar gagnvart Úkrínumönnum sem hafa fullnægt öllum skilyrðum,“ sagði heimildarmaður innan ESB við Reuters.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …