Home / Fréttir / Hollendingar og Pólverjar snúast gegn lygamiðlun Rússa

Hollendingar og Pólverjar snúast gegn lygamiðlun Rússa

 

Rússneskur áróður - rússneski björninn sparkar Bandaríkjaþjóni úr Úkraínu
Rússneskur áróður – rússneski björninn sparkar Bandaríkjaþjóni úr Úkraínu

Hollendingar og Pólverjar ætla að taka höndum saman um að koma á fót fréttastofu á rússnesku í því skyni að snúast gegn áróðri Rússa. Bert Koenders, utanríkisráðherra Hollands, sagði á fundi með blaðamönnum í Brussel mánudaginn 20. júlí að markmiðið væri að miðla hlutlægum upplýsingum á rússnesku sem síðar kynnu að rata í rússneska fjölmiðla og samfélagsmiðla.

Grzegorz Schetyna, utanríkisráðherra Póllands, sagði markmiðið að hefja miðlun sem ekki væri reist á áróðri og yfirgangi heldur raunverulegum, traustum upplýsingum. Hann sagði að um yrði að ræða efni fyrir sjónvarp, hljóðvarp og netmiðla sem nota mætti af stöðvum í austurhluta Evrópu og Rússlandi sjálfu.

Í september verður efnt til fjáröflunarfundar vegna framtaksins í Varsjá og seinna verður sambærilegur fundur í Haag. Stefnt er að því að fréttastofan taki til starfa á næsta ári.

Koenders sagði að áformunum um nýju fréttastofuna hefði verið vel tekið þegar þau voru kynnt á fundi utanríkisráðherrafundi ESB-ríkjanna í Brussel mánudaginn 20. júlí. Hollendingar studdu athugun á þörfinni fyrir andóf gegn áróðri Rússa.  European Endowment for Democracy (EED), stofnun í Brussel, tengd ESB, kannaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að koma á fót „efnisveitu“ og einskonar „evrópsku BBC“.

Þá hefur utanríkisþjónusta ESB einnig látið sig mál af þessu tagi varða eftir að leiðtogaráð ESB fól henni í mars 2015 að finna leiðir til „snúast gegn rangfærslu-herferðum Rússa“.

Utanríkisþjónustan hefur ráðið fimm sérfræðinga frá Bretlandi, Danmörku, Eistlandi, Lettlandi og Tékklandi til að stjórna upplýsingamiðstöð sem nefnist East StratComTeam. Hún hefur ekki hafið starfsemi.

Hollensk stjórnvöld fengu EED til að gera athugun sína eftir að MH 17 flugvélin var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu í júlí 2014 með 298 manns innan borðs. Strax var talið að her undir handarjaðri Rússa hefði skotið á vélina fyrir mistök.

Rússar svöruðu þessum ásökunum með samsæriskenningum þar sem skuldinni var skellt á Úkraínumenn.

Unnið er að sakamálarannsókn á tildrögum þess að vélinni var grandað og er niðurstaða hennar væntanleg í október.

Heimild: EUobserver

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …