Home / Fréttir / Hollendingar greiða atkvæði um samning ESB og Úkraínu

Hollendingar greiða atkvæði um samning ESB og Úkraínu

 

Andstæðingar samnings ESB við Úkraínu í Hollandi.
Andstæðingar samnings ESB við Úkraínu í Hollandi.

Í júlí 2015 tóku gildi ný lög í Hollandi sem gera almennum borgurum kleift að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ný lög með fáeinum undantekningum, að lögin snerti ekki konungsfjölskylduna, að ekki sé um breytingar á stjórnarskrá að ræða eða fjárlög ríkisins og svipuð málefni.

Þennan rétt geta borgararnir nýtt sér með söfnun undirskrifta. Þar er um tvö skref að ræða. Takist að safna 10.000 undirskriftum um þjóðaratkvæðagreiðslu innan fjögurra vikna eftir að báðar deildir þings hafa samþykkt lög og þau birt í stjórnartíðindum ber að fresta gildistöku laganna. Þá gefast sex vikur til að safna 300.000 undirskriftum. Takist það skal efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sé lögum hafnað ber ríkisstjórninni að leggja fram nýtt lagafrumvarp sem annað hvort afnemur lögin sem var hafnað eða áréttar gildi þeirra – atkvæðagreiðslan er aðeins ráðgefandi.

Til að atkvæðagreiðslan hafi gildi þurfa hið minnsta 30% kjósenda að greiða atkvæði.

Fyrsta atkvæðagreiðslan í krafti hinna nýju laga frá í fyrra fer fram miðvikudaginn 6. apríl og eru greidd atkvæði um samstarfs- og viðskiptasamning ESB við Úkraínu.

Stuðningsmenn samningsins saka andstæðinga hans um að ganga erinda Rússa með óvild í garð Úkraínu að leiðarljósi.

Á það er hins vegar bent af fréttaskýrendum að atkvæðagreiðslan snúist í raun ekki um þennan samning heldur afstöðu Hollendinga í garð ESB. Vísa þeir til ummæla forráðamanna undirskriftarsöfnunarinnar sem segja að í raun hafi tilviljun ráðið að þetta mál yrði lagt undir þjóðina, það hafi einfaldlega verið fyrsta ESB-málið sem þingið afgreiddi eftir að lögin frá í fyrra um réttinn til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu gengu í gildi.

Vilji aðstandenda kröfunnar um atkvæðagreiðslu hafi staðið til þess að láta reyna á lýðræðislega afstöðu til ESB þar sem þróunin hafi ekki verið í takti við hollenskar lýðræðishefðir.

Á hollenska þinginu styður mikill meirihluti þingmanna samning ESB og Úkraínu sem gerður var árið 2014 og gekk í gildi 1. janúar 2016. Verði hann felldur í atkvæðagreiðslunni í Hollandi sem talið er líklegt er óljóst hvað verður um samninginn.

Hollenska ríkisstjórnin hefur látið lítið fyrir sér fara í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar enda er henni ekki kappsmál að meira en 30% greiði þar atkvæði. Ríkisstjórnin segist munu láta niðurstöðuna sig varða án þess að ljóst sé hvað hún geri verði samningurinn felldur.

 

 

Andstæðingar samnings ESB við Úkraínu í Hollandi.
Andstæðingar samnings ESB við Úkraínu í Hollandi.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …