Home / Fréttir / Hollendingar greiða atkvæði um ESB-samning við Úkraínu – jafnvægi í Evrópu í húfi segir Juncker

Hollendingar greiða atkvæði um ESB-samning við Úkraínu – jafnvægi í Evrópu í húfi segir Juncker

 Boris Lozhkin, skrifstofustjóri forsetaembættisins í Kænugarði.
Boris Lozhkin, skrifstofustjóri forsetaembættisins í Kænugarði.

Miðvikudaginn 6. apríl verður efnt til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í Hollandi um hvort styðja beri aðild Hollands að efnahags- samstarfssamningi ESB og Úkraínu. Unnt er að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál í Hollandi ef meira en 300.000 manns (af 16,8 milljón íbúum) rita undir kröfu um slíka atkvæðagreiðslu, 427.939 gerðu það í þessu tilviki í Hollandi.

Svokölluð Geenstijl-nefnd barðist fyrir að samningurinn yrði lagður undir þjóðina. Nefndin er andvíg stækkun ESB og segir að samningurinn við Úkraínu muni enn skaða lýðræði í Hollandi. Aðrir ESB-andstæðingar berjast einnig gegn samningnum.

Hollenska þingið samþykkti árið 2014 lög sem leyfðu „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur“ um umdeild mál gætu stuðningsmenn atkvæðagreiðslunnar safnað 300.000 undirskriftum. Hollenska þingið hefur þegar lýst yfir stuðningi við samninginn.

Nú hefur verið greint frá því að stjórnvöld í Kænugarði ætli að láta að sér kveða í baráttunni um afstöðu hollenskra kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Á vefsíðunni Euractiv birtist miðvikudaginn 27. janúar viðtal við Boris Lozhkin, skrifstofustjóra forsetaembættisins í Kænugarði. Þar er hann spurður að því hvað gerist ef andstæðingar samningsins við Úkraínu sigri í Hollandi.

Lozhkin segir að á fundi með Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hafi Úkraínumenn óskað eftir stuðningi hollensku ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þeir voni að hollenska þjóðin styðji Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði ætli að taka þátt í baráttunni í Hollandi í samvinnu við þekkta listamenn frá Úkraínu. Markmiðið sé að sýna Úkraínu eins og hún er.

Hann vonar að atkvæðagreiðslan spilli hvorki sambandinu við ESB né tvíhliða samskiptum við Hollendinga. Mestu skipti að sýna Úkraínu og líf íbúa hennar. Hann segist vonsvikinn yfir að Hollendingar skuli greiða atkvæði um þetta mál. Hann telur ástæðuna fyrir atkvæðagreiðslunni að finna í andróðri gegn Úkraínu að undirlagi Rússa. „Þeir vilja sýna að land okkar sé fullt af öfgamönnum og bandíttum,“ segir Lozhkin við Euractiv.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði við hollensku útvarpsstöðina NRC, 11. janúar að það mundi leiða til „meiriháttar krísu í álfunni“ ef  Hollendingar höfnuðu Úkraínu-samningnum.

Álitsgjafar segja að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hrófli ekki við samningnum en í henni muni birtast afstaða til ESB. Juncker sagði að Rússar mundu líta á það sem stuðning við sig ef nei-sinnar sigruðu í atkvæðagreiðslunni. Hann gagnrýndi ekki að gengið yrði til atkvæða um málið, það snerti þó ekki Hollendinga eina heldur kynni niðurstaðan að „breyta jafnvæginu í Evrópu“.

Meirihluti hollenskra þingmanna telur að virða beri niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar þótt hún sé ekki bindandi. Kjörsókn verður að vera 30% til að atkvæðagreiðslan hafi opinbert gildi.

Árið 2005 felldu Hollendingar tillögu að stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kjörsókn var 63% og tæp 62% þeirra sem greiddu atkvæði höfnuðu stjórnarskránni.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …