
Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa formlega lýst yfir að þau hafi staðið að baki árásum í París og Saint-Denis, skammt frá París, að kvöldi föstudags 13. nóvember. Að minnsta kosti 128 féllu í árásinni og um 100 manns særðust. Í yfirlýsingu samtakanna segir að árásin hafi verið skipulögð „af nákvæmni“, þar er einnig minnst á aðild Frakka að sprengjuárásum í Sýrlandi og „móðganir í garð Múhameðs spámanns“.
François Hollande Frakklandsforseti hafði skömmu fyrir tilkynninguna frá Ríki íslams laugardaginn 14. nóvember lýst ábyrgð á hendur samtökunum í sjónvarpsávarpi til frönsku þjóðarinnar. Hann hét því að Frakkar myndu ekki sýna „barbörum neina miskunn“. Hann lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg og sagði að viðbúnaður allra öryggisstofnana ríkisins yrði eins og hann gæti orðið mestur.
„Það sem gerðist í gær í París og Saint-Denis var stríðsaðgerð og í stríði verður ríkið að taka viðeigandi ákvarðanir. Aðgerð framin af her hryðjuverkamanna, Daesh [arabískt heiti Ríkis íslams] gegn okkur og því sem við erum, frjálst ríki sem talar til alls heimsins. Undirbúin stríðsaðgerð, skipulögð að utan með samverkamönnum innanlands eins og staðfest verður með frekari rannsóknum. Aðgerð í anda algjörs barbarisma. […]
Frakkland er öflugt jafnvel þótt unnt sé að veita því sár, það rís ávallt upp að nýju og ekkert getur brotið það jafnvel þótt sorgin sæki að okkur. Frakkland er traust, virkt, vakandi og mun sigrast á barbaríinu. Sagan minnir okkur á þetta og við sannfærumst þegar við sjáum aflið sem við getum virkjað í dag.
Kæru landsmenn, við verjum þjóð okkar, en í raun mun meira en það, við verjum gildi mannúðar, Frakkland skorast ekki undan ábyrgð og ég bið ykkur um að treysta samheldnina sem skiptir öllu.“
Mánudaginn 16. nóvember mun Frakklandsforseti ávarpa sameinað þing beggja deilda franska þingsins sem kemur saman í Versölum.