Home / Fréttir / Holland: Ríkisstjórnin heldur sér til hlés í þjóðaratkvæðagreiðslu um samning við Ukraínu

Holland: Ríkisstjórnin heldur sér til hlés í þjóðaratkvæðagreiðslu um samning við Ukraínu

Holland

Hollenska ríkisstjórnin ætlar ekki að skipa sér í fylkingarbrjóst þeirra sem berjast fyrir að meirihluti Hollendinga styðji nýsamþykkt lög um samstarfssamning milli ESB og Úkraínu.

„Við ætlum ekki úti á stræti og torg með flögg og bjöllur,“ sagði Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, á blaðamannafundi föstudaginn 29. janúar. Hann svaraði á þennan hátt spurningu um hvenær ríkisstjórnin ætlaði að hefja baráttu fyrir lögunum og samningnum. Gengið verður til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið 6. apríl nk.

„Þegar þú segir baráttu, hugsa ég um kosningar, þetta eru ekki kosningar. Þetta er þjóðaratkvæðagreiðsla,“ sagði hollenski forsætisráðherrann.

Krafan um þjóðaratkvæðagreiðsluna kom fram á árinu 2015. Ný lög mæla fyrir um að efnt skuli til atkvæðagreiðslunnar krefjist hið minnsta 300.000 manns þess með undirskrift sinni. Tæpar 17 milljónir manna búa í Hollandi.

Spurningin sem svarað skal 6. apríl er þessi: „Ertu með eða á móti lögunum sem fela í sér samþykki við samstarfssamningnum milli Evrópusambandsins og Úkraínu?“

„Fái ríkisstjórnin tækifæri til að láta í ljós skoðun sína í frjálsum, opnum fjölmiðlum Hollands mun hún gera það til að skýra stuðning okkar. Menn gera ekki slíkt með borðum og flöggum. Stofnanir og samtök almennings geta gert það,“ sagði Rutte.

Á vefsíðunni EUobserver segir mánudaginn 1. febrúar að samtök almennings hafi þegar tekið til við að safna fé og skipulagðir hafi verið baráttufundir víðsvegar um landið.

Í hollenskum fjölmiðlum hefur verið sagt frá því að milljarðamæringurinn George Soros í New York hafi styrkt nei-samtökin Stem Voor Nederland með 200.000 (28,4 m ISK) evra framlagi úr sjóði sínum Open Society Foundation.

Sumir meðal nei-sinna hafa gagnrýnt að útlendingar leggi fram fé vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar og sendu þeir fyrir nokkrum dögum bréf til Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og hvöttu hana til endurskoða afstöðu sína um að senda ekki eftirlitsmenn til að fylgjast með framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni telja ýmsir stuðningsmenn laganna að nei-sinnar gangi erinda Rússa sem vilji spilla samskiptum ESB og Úkraínu. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur sagt að sigri nei-sinnar kunni það að leiða til „meiriháttar krísu í álfunni“.

Hollenska ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðstafa 2 milljónum evra (284 m. ISK) í þágu ólíkra sjónarmiða vegna atkvæðagreiðslunnar. Skipulögð félög og stofnanir geta fengið allt að 50.000 evra (7,1 m. ISK) í styrk en einstaklingar allt að 5.000 evrum (710.000 ISK).

Nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar mun skipta styrkjunum „jafnt milli einstaklinga og stofnana sem eru með eða á móti eða sem skipuleggja hlutlausar aðgerðir“.

Á vinsælu bloggsíðunni GreenStijl sem var í raun upphafsstaður undirskriftasöfnunarinnar um þjóðaratkvæðagreiðsluna er hafin hópsöfnun og þar hafa þegar safnast 10% af settu marki sem er 427.929 evrur (60,7 m. ISK), það er ein evra fyrir hverja undirskrift sem safnaðist í þágu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Atkvæðagreiðslan er marklaus nema að minnsta kosti 30% taki þátt í henni. Sumir segja að ríkisstjórnin vilji sem minnsta þátttöku. Þetta birtist meðal annars í að sveitarfélögum sé ekki veitt aðstoð við að opna kjörstaði. Rutte hafnar því að stjórnin letji fólk til þátttöku.

Einu sinni áður hefur verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í Hollandi, árið 2005 þegar greidd voru atkvæði um stjórnarskrársáttmála ESB – þátttakan þá var 63,3% en 61,6% þeirra sem kusu sögðu nei við sáttmálanum.

Könnun hefur verið gerð á hug Hollendinga til samningsins við Úkraínu. Þar sögðust 53% örugglega ætla að greiða atkvæði. Þá sögðust 51% „örugglega“ ætla að segja nei, 23% til viðbótar sögðust „líklega“ ætla að segja nei, aðeins 13% sögðust „örugglega“ ætla að styðja samninginn.

Þetta er í hróplegri andstöðu við sjónarmiðin á hollenska þinginu þar sem flestir flokkanna styðja samninginn.

Heimild: EUobserver

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …