Home / Fréttir / Hófleg bjartsýni um fund Trumps og Kims

Hófleg bjartsýni um fund Trumps og Kims

Þetta er dæmigerð mynd sem sýnir að Kim Jong-un stjórnar - allir skrá það sem hann segir. Kínverjar sýndu hins vegar mynd þar sem Kim sat og skráði það sem Xi Jinping hafði að segja. Skilaboðin gátu ekki verið skýrari.
Þetta er dæmigerð mynd sem sýnir að Kim Jong-un stjórnar – allir skrá það sem hann segir. Kínverjar sýndu hins vegar mynd þar sem Kim sat og skráði það sem Xi Jinping hafði að segja. Skilaboðin gátu ekki verið skýrari.

Starfsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sögðust „hóflega bjartsýnir“ miðvikudaginn 28. mars á að efnt yrði til fundar Trumps með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, einhvern tíma í maí. Enn hefur ekki verið ákveðið hvar fundurinn verður og óvíst er um efni viðræðna þeirra.

Þetta segir í grein í The Washington Post (WP) fimmtudaginn 29. mars. Þar er haft eftir Söruh Huckabee Sanders, blaðafulltrúa Hvíta hússins: „Okkur finnst eins og þetta mjakist í rétta átt.“

Vitnað er í bandaríska embættismenn sem segja að það hafi komið á óvart þegar fréttin barst um það seint þriðjudaginn 27. mars að Kínverjar hefðu stofnað til eigin leiðtogafundar með Kim þá um daginn. Meðal bandarískra embættismanna væru skiptar skoðanir um hvort Kína-fundurinn þjónaði markmiði Bandaríkjastjórnar eða ekki. Að lokum hefði þó verið komist að þeirri niðurstöðu að hann sýndi að „hámarks-þrýstingur“ Bandaríkjastjórnar á Norður-Kóreumenn hefði borið árangur.

Það var jafnframt talið til marks um óvissuna í kringum samskipti Trumps við Norður-Kóreumenn að ráðamenn í Peking hefðu ekki formlega sagt bandarískum embættismönnum frá fundinum fyrr en honum var lokið og Kim Jong-un aftur á leið heim í brynvarinni járnbrautarlest sinni.

Trump sagði á Twitter snemma að morgni miðvikudags 28. mars að hann hefði seint á þriðjudeginum fengið skilaboð frá Xi Jinping, forseta Kína, um að fundur hans og Kims hefði „gengið mjög vel og KIM hlakki til fundarins með mér“.

Af greininni í WP verður ráðið að engin bein samskipti séu milli bandarískra og norður-kóreskra stjórnvalda vegna fundar Trumps og Kims heldur berist boðin um hann annað hvort frá Suður-Kóreumönnum eða Kínverjum.

Á næstu dögum setjast nýir menn í stól utanríkisráðherra og þjóðaröryggisráðgjafa Trumps. Við þessar aðstæður er unnið að undirbúningi fundarins með Kim án þess að hafa í raun fast land undir fótum.

Enginn veit enn um fundarstaðinn. Peking hefur verið nefnd en bandarískir embættismenn hafna henni, ekki síst vegna þess að vandasamt sé að útiloka njósnir Kínverja. Opinberir bandarískir gestir í Kína líta þannig á að samtöl þeirra séu hleruð, fylgst sé með öllum ferðum þeirra og einkafundum, þá sé leitað af nákvæmni í öllum farangri þeirra.

Sérfræðingar í Washington segja að ákvörðun Kínaforseta um að hitta Kim sýni að Kínverjar vilji hafa hönd í bagga sem helsta samstarfsþjóð N-Kóreumanna í efnahagsmálum og alþjóðamálum. Þá hafi Xi einnig viljað sýna Trump að hann gæti leikið sína leiki eins og Trump gerði með því að samþykkja fund með Kim án samráðs við Xi. Auk þess verði að skoða framgöngu Kínverja í ljósi þess að þeim var misboðið með ákvörðun Trumps um að leggja 60 milljarða dollara hugverkatoll á bandarískar vörur til Kína.

Fréttamaður BBC sagði að myndir sem Kínverjar hefðu birt af fundi leiðtoganna hefðu átt að sýna að Xi hefði þar alla þræði í hendi sér og væri einskonar lærifaðir Kims. Mætti þar til dæmis nefna myndina þar sem Kim situr og skrifar hjá sér í blokk sem Xi hefur að segja. Að slík mynd birtist af leiðtoga Norður-Kóreu sé einstakt – jafnan sitji menn með minnisblokkir og skrifi hjá sér það sem hann hafi að segja á milli þess sem þeir fagni orðum hans með lófataki.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …