Tveir rússneskir blaðamenn sem starfa fyrir vinsæla vefsíðu, lenta.ru, sem er hlynnt Kremlverjum hlóðu inn á hana greinum gegn Úkraínustríðinu að morgni rússneska sigurdagsins yfir nazistum, mánudagsins 9. maí.
Í greinunum er Vladimir Pútin forseta lýst sem „aumkunarverðum vænisjúkum einræðisherra. Hann er sakaður um að hafa stofnað til „blóðugasta stríðs 21. aldarinnar“.
„Við urðum að gera þetta í dag. Við vildum minna alla á að afar okkar börðust í raun fyrir þessum fallega sigurdegi – í þágu friðar,“ sagði Egor Poljakov (30 ára) annar blaðamannanna.
Í ávarpi sem Pútin flutti á Rauða torginu yfir 11.000 hermönnum og sem sjónvarpað var réttlætti hann stríðið í Úkraínu með því að vísa til ofsókna á hendur Rússum úr vestri.
„Sigurdagurinn snýst ekki um þetta,“ sagði Poljakov í samtali við breska blaðið The Guardian. „Almennir borgarar deyja, friðsamar konur og börn deyja í Úkraínu. Miðað við það sem sagt er við okkur heldur þetta áfram en hættir ekki. Við gátum ekki sætt okkur lengur við þetta. Við gátum ekki gert annað en þetta.“
Poljakov fjallar um viðskiptamál á Lenta. Hann sagði að með starfssystur sinni, Alexöndru Miroshnikovu, hefði hann birt meira en 40 gagnrýnar greinar á Kremlverja og aðgerðir þeirra í Úkraínu. Greinarnar hefðu síðan verið fjarlægðar en það væri unnt að nálgast þær með veftóli sem fer inn í skjalageymslur.
Á hverjum mánuði eru heimsóknir á Lentu meira en 200 milljónir og er hún því meðal stærstu og mest sóttu vefsíða í Rússlandi. Henni hefur miskunnarlaust verið beitt til að flytja áróður í því skyni að réttlæta innrás Rússa í Úkraínu. Lenta er í eigu Rambler, fjölmiðlafyrirtækis sem Sberbank, stærsti rússneski bankinn, keypti árið 2020. Bankinn er í eigu ríkisins og sætir refsiaðgerðum af hálfu Bandaríkjamanna og Breta.
Fyrirsagnir greinanna sem Poljakov og Miroshnikova birtu að morgni 9. maí voru meðal annars: Vladimir Pútin laug um áætlanir Rússa í Úkraínu; Rússneski herinn reyndist vera her þjófa og ræningja og Rússar skilja eftir lík hermanna sinna í Úkraínu.
Þau birtu einnig bréf frá sér á vefsíðunni þar sem lesendur voru hvattir til dáða: Hræðist ekki! Þegið ekki! Snúist til varnar! Þið standið ekki ein, við erum mörg! Framtíðin er okkar!
„Auðvitað er ég hræddur,“ sagði Poljakov. „Ég skammast mín ekki fyrir að játa það. Ég vissi hins vegar hvað ég var að gera, hverjar afleiðingarnar kynnu að verða.“