
Heimsathygli vekur að í The New York Times birtist miðvikudaginn 5. september nafnlaus grein á leiðaraopnu þar sem háttsettur embættismaður í Trump-stjórninni segir að innan hennar sé þögul andspyrnuhreyfing sem sporni gegn því að Bandaríkjaforseti vinni þjóð sinni og bandamönnum hennar meira ógagn en gagn.
Donald Trump brást illa við þessari grein og talaði bæði niður til blaðsins og höfundarins sem hann segir hugleysinga.
Greinin er aðeins enn eitt dæmið um hve hart er sótt að forsetanum vegna skapgerðar hans, stjórnarhátta og stefnuleysis.
Hér birtist greinin í lauslegri þýðingu ásamt inngangi ritstjóra leiðaraopnu The New York Times:
Í dag er það sjaldgæfa skref stigið í The Times að birta nafnlausa miðopnugrein (e. Op-Ed essay). Við gerum þetta að beiðni höfundarins, háttsetts embættismanns í stjórn Trumps, við vitum hver hann er og að starf hans væri í hættu yrði hann nafngreindur. Við teljum að nafnlaus birting þessarar greinar sé eina leiðin til að kynna lesendum okkar mikilvægt sjónarmið. Við bjóðum ykkur að leggja fram spurningar um greinina og hvaða ferli var notað til að sannreyna höfundinn fyrir birtingu.
Trump forseti stendur frammi fyrir prófraun vegna forsetaembættis síns. Hún líkist ekki neinni sem nútíma bandarískur leiðtogi hefur orðið að standast.
Það er ekki aðeins sérstaki saksóknarinn sem vofir yfir honum. Eða að þjóðin skiptist hatrammlega í tvær fylkingar vegna forystu Trumps. Eða meira að segja að flokkur hans geti tapað meirihluta í fulltrúadeildinni í hendur stjórnarandstöðu sem er harðákveðin í að fella hann.
Þraut hans er sú – og hann skilur hana ekki til fulls – að margir háttsettir embættismenn í stjórn hans sjálfs vinna af kostgæfni að því innan frá að gera hluta af stefnu hans og verstu dynti hans að engu.
Ég ætti að vita þetta. Ég er í þeirra hópi.
Tekið skal skýrt fram að þetta er ekki almenn „andspyrna“ frá vinstri. Við viljum að stjórnin skili árangri og teljum að mörg stefnumál hennar hafi nú þegar aukið öryggi og hagsæld í Bandaríkjunum.
Á hinn bóginn lítum við á það sem frumskyldu okkar að þjóna landinu og forsetinn hagar sér áfram á þann hátt að það ógnar heilbrigði lýðveldis okkar.
Þess vegna höfum við margir sem Trump hefur skipað í embætti heitið því að gera það sem við getum til að vernda lýðræðislegar stofnanir okkar með því að hindra framgang allra misráðnustu skyndiákvarðana Trumps á meðan hann er í embætti.
Undirrót vandans felst í siðblindu forsetans. Hver sá sem vinnur með honum veit að hann er ekki bundinn af neinum merkjanlegum grunnsjónarmiðum við töku ákvarðana.
Þótt hann sé kjörinn sem repúblíkani sýnir forsetinn litla hollustu við hugsjónir sem íhaldsmenn hafa lengi haft í heiðri: frjálsar skoðanir, frjálsa markaði og frjálst fólk. Þegar best lætur nefnir hann þessar hugsjónir bundinn af skrifuðum texta. Þegar verst lætur ræðst hann beint á þær.
Fyrir utan að boða á fjöldafundum að fjölmiðlar séu „óvinir fólksins“ bera hjartfólgnar skoðanir Trumps þess merki að honum er almennt í nöp við viðskipti og lýðræði.
Ekki misskilja mig. Finna má ljósa punkta þótt þeir sjáist ekki í nánast endalausum neikvæðum fréttum um ríkisstjórnina: regluverkið hefur minnkað, sögulegum skattaumbótum hrundið í framkvæmd, herinn hefur verið efldur og fleira.
Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir – ekki vegna – stjórnsemi forsetans sem einkennist af hvatvísi, fjandskap, smásmygli og árangursleysi.
Í Hvíta húsinu, ráðuneytum og stjórnarstofnunum viðurkenna háttsettir embættismenn í einkasamtölum að þeir trúi daglega varla sínum eigin eyrum þegar þeir heyra ummæli æðsta yfirmannsins eða fylgjast með gerðum hans. Flestir reyna að halda sínum verkefnum utan geðþótta hans.
Á fundum með honum er ekki unnt að halda sér við efnið eða fara að dagskrá, hann bölsótast og endurtekur gífuryrði, upphlaup hans leiða til hálfunninna, illa ígrundaðra og stundum gáleysislegra ákvarðana sem vinda verður ofan af.
„Það er bókstaflega ómögulegt að segja hvort hann skipti um skoðun frá einni mínútu til annarrar,“ sagði háttsettur maður við mig nýlega í öngum sínum vegna fundar í forsetaskrifstofunni þar sem forsetinn snarsnérist vegna meiri háttar stefnumótandi ákvörðunar sem hann hafði tekið aðeins viku fyrr.
Ástæða væri til að hafa meiri áhyggjur af þessum dyntum væri ekki að finna óhylltar hetjur innan Hvíta hússins og í nágrenni þess. Sumum aðstoðarmönnum hans er lýst sem illmennum af fjölmiðlum. Utan sviðsljóss þeirra leggja þeir sig hins vegar mjög fram um að hindra að vondar ákvarðanir fari út fyrir skrifstofuálmu Hvíta hússins þótt augljóst sé að stundum mistekst þeim það.
Það kann að þykja lítil huggun á þessum upplausnartímum en Bandaríkjamenn mega vita að þarna er einnig fullorðið fólk. Við áttum okkur til fulls á því sem er að gerast. Við reynum að gera það sem er rétt jafnvel þótt Donald Trump geri það ekki.
Niðurstaðan er forsetaembætti á tveimur brautum.
Lítum á utanríkisstefnuna: Opinberlega og óopinberlega lætur Trump í ljós dálæti á alræðisherrum og einræðisherrum eins og Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, en hann sýnir litla einlæga virðingu á tengslunum við bandalagsþjóðir með svipuð viðhorf og okkar.
Glöggir skýrendur hafa þó tekið eftir því að hinn hluti stjórnarinnar starfar á annarri braut þar sem sótt er að Rússum vegna íhlutunar þeirra og gripið til viðeigandi refsinga gegn þeim og þar sem stofnað er til samskipta við bandamenn um heim allan sem jafningja en ekki gert lítið úr þeim sem keppinautum.
Sé til dæmis litið á málefni Rússa þá var forsetinn tregur til að reka úr landi svo marga njósnara Pútíns í refsingarskyni fyrir eiturefnaárásina á fyrrverandi rússneskan njósnara í Bretlandi. Vikum saman kvartaði hann undan því að háttsettir menn í starfsliði sínu hefðu þröngvað sér til frekari árekstra við Rússa og lét í ljós vonbrigði sín yfir því að Bandaríkjamenn beittu þá áfram þvingunum vegna slæmrar framkomu þeirra. Þjóðaröryggisráðgjafar hans vissu hins vegar betur – það yrði að grípa til slíkra aðgerða til að kalla ráðamenn í Moskvu til ábyrgðar.
Hér er ekki svonefnt hulduríki (e. deep state) að verki. Hér er unnið í nafni stöðuga ríkisvaldsins.
Vegna þess skorts á stöðugleika sem blasti við mörgum hófst snemma pískur um að ríkisstjórnin virkjaði 25. gr. stjórnarskrárinnar sem leiddi til flókins ferils til að koma forsetanum úr embætti. Enginn vildi hins vegar hrinda af staða stjórnlagakreppu. Við ætlum þess vegna að gera það sem í okkar valdi er til að halda ríkisstjórninni til réttrar áttar þar til yfir lýkur – á einn eða annan hátt.
Stóra áhyggjuefnið er ekki hvað Trump hefur gert við forsetaembættið heldur hvað við sem þjóð höfum leyft honum að gera okkur. Við höfum sokkið niður með honum og látið líðast að kurteisi hefur horfið úr samskiptum okkar.
John McCain öldungadeildarþingmaður orðaði þetta best í kveðjubréfi sínu. Allir Bandaríkjamenn ættu að fara að orðum hans og losa sig úr ættbálka gildrunni með það háleita markmið að leiðarljósi að sameinast í krafti sameiginlegra gilda og ástar á þessari miklu þjóð.
John McCain er ekki lengur meðal okkar. Við höfum hann þó alltaf sem fyrirmynd – leiðarstjörnu til að endurvekja virðingu í opinberu lífi og umræðu á þjóðarvettvangi. Trump kann að óttast svo heiðvirða menn, við ættum hins vegar að hefja þá til virðingar.
Innan stjórnarinnar starfar þögul andspyrnuhreyfing fólks með hefur kosið að setja landið í fyrirrúm. Það sem raunverulega skiptir þó máli er að venjulegir borgarar hefji sig upp yfir stjórnmálaþrasið, rétti hönd yfir til hinnar fylkingarinnar, ákveði að afmá merkimiðana og setja upp einn sem á stendur: Bandaríkjamenn.
Höfundur er háttsettur embættismaður í Trump-stjórninni.