Home / Fréttir / Hljóðfráar rússneskar sprengjuþotur á norðurslóðum

Hljóðfráar rússneskar sprengjuþotur á norðurslóðum

Hljóðfrá rússnesk Tu-160 sprengjuþota á flugi utan norskrar lofthelgi.
Hljóðfrá rússnesk Tu-160 sprengjuþota á flugi utan norskrar lofthelgi.

Tvær langdrægar, hljóðfráar rússneskar sprengjuþotur af Tu-160-gerð í fylgd orrustuvéla rússneska Norðurflotans reyndu krafta sína utan lofthelgi Noregs í norðri þriðjudaginn 9. febrúar.

Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar BarentsObserver segir frá ferðum vélanna á síðunni og segir að þær hafi verið 12 tíma á lofti og flogið um rússneska lofthelgi og alþjóðlega lofthelgi yfir Barentshafi, Noregshafi og Grænlandshafi samkvæmt upplýsingum varnarmálaráðuneytisins í Moskvu.

Nilsen segir að langdrægar rússneskar sprengju.otur komi frá Engels-flugherstöðinni skammt frá Saratov í suðvesturhluta Rússlands.

Orrustuþotur rússneska Norðurflotans fylgdu vélunum yfir Kólaskaga og út á Barentshaf áður en Tu-160-vélarnar héldu í vestur fyrir norðan Noreg.

Tvær F-16 orrustuþotur í hraðviðbragðsliði NATO (Quick Reaction Alert (QRA)) frá Bodø flugherstöðinni í Noregi flugu í veg fyrir rússnesku vélarar undan strönd Finnmerkur.

Rússnesku sprengjuvélarnar sýndu sig undan strönd Noregs sama dag og norska heræfingin Hawk12 hófst en allar greinar norska hersins taka þátt í henni auk þess sem æfðar eru netvarnir.

Í fréttinni er minnt á að hernaðarleg umsvif aukist á Atlantshafi og Íshafi og í nýrri árskýrslu leyniþjónustu norska hersins sem birtist mánudaginn 8. febrúar sé varað við þessari þróun.

Fréttir eru um að bandaríski flugherinn ætli að senda Bomber Task Force (BTF), sveit fjögurra sprengjuflugvéla af Rockwell B-1B Lancers-gerð til Ørland herstöðvarinnar í Noregi nú síðar í febrúar. Stöðin er um 1.000 km frá rússnesku landamærunum en rússnesk yfirvöld hafa nú þegar brugðist mjög hart við þessum áformum Bandaríkjamanna.

Á Facebook-síðu rússneska sendiráðsins í Osló segir að með því að leyfa vélunum að koma til Noregs stofni norsk stjórnvöld öryggi í norðurhluta Evrópu og á norðurslóðum í hættu. Á hinn bóginn þjóni allt sem Rússar geri á norðurslóðum vörnum þeirra.

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …