
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, lenti í vandræðum á ráðstefnu í Nýju Delí í liðinni viku. Í pallborðsumræðum um alþjóðamál vöktu ummæli hans um að nú væri háð stríð gegn Rússum með því að beita Úkraínumönnum undrun og hæðnishlátur viðstaddra.
Það var indverska hugveitan Observer Research Foundation sem bauð til ráðstefnunnar í röð funda undir heitinu Raisina Dialogue og að þessu sinni tóku þar þátt fræðimenn, forystumenn í viðskiptum og stjórnarerindrekar frá G20 ríkjunum sem efndu 1. og 2. mars til utanríkisráðherrafundar í Nýju Delí.
Í frétt franska blaðsins Le Figaro af atvikinu er minnt á að indversk stjórnvöld vilji sýna „hlutleysiª vegna stríðsins í Úkraínu en það dugi ekki til að leyna eðli stríðsins. Það hafi viðbrögðin við ræðu Lavrovs í Nýju Delí föstudaginn 3. mars sannað. Utanríkisráðherrann hafi verið hafður að spotti þegar hann reyndi að lýsa Rússum sem fórnarlambi í Úkraínustríðinu.
Hann sagði: „Þið vitið að stríðið sem við reynum að stöðva var hafið gegn okkur með því að nota Úkraínumenn…“ en komst ekki lengra vegna þess að ráðstefnugestir hlógu svo hátt að honum. Ráðherranum brá greinilega en hélt að lokum áfram: „[Stríðið] hefur að sjálfsögðu haft áhrif á stefnu Rússa og þar með stefnuna í orkumálum. Og til að segja hreint út hvað hefur breyst, við munum ekki lengur eiga neitt undir nokkrum samstarfsaðilum í vestri.“
Því hafði áður verið tekið með lófataki þegar Lavrov sakaði Vesturlönd um tvöfalt siðgæði, þau gagnrýndu Rússa harðlega fyrir innrásina í Úkraínu en hefðu sjálf ráðist inn í Írak og Afganistan.
Indverska ríkisstjórnin hefur aldrei fordæmt innrásina í Úkraínu og segir að afstaða sín mótist af „jafnvægi“. Allt frá sovéttímanum hefur samband Rússa og Indverja verið náið. Þjóðirnar hafa átt samstarf í efnahagsmálum og indverski herinn treystir mjög á rússnesk hergögn. Christophe Jaffrelot, sérfræðingur í indverskum málefnum, segir að tveir þriðju hergagna Indverja komi frá Rússlandi.
Indverjar hafa aukið innflutning á rússneskri olíu eftir að sett var bann á hana á Vesturlöndum. Þeir fluttu inn 1,2 milljónir tunna af rússneskri olíu á dag í desember. Það er 29% aukning frá nóvember. Fyrir stríðið nam olía frá Rússlandi aðeins 1% af innflutningi Indverja en var 18% í apríl 2022. Þeir kaupa olíuna á niðursettu verði en ESB og Bandaríkin setja 60 dollara verðþak í óþökk Rússa og leggja að Indverjum að virða það.