Net- og símasamband rofnaði við Hjaltlandseyjar, milli Skotlands og Færeyja, fimmtudaginn 20. október þegar tveir neðansjávarstrengir biluðu. Tókst innan tiltölulega skamms tíma að koma á sambandi að nýju
Færeyska símafyrirtækið Føroya Tele annast rekstur þessara strengja. Telja sérfræðingar þess að fiskiskip hafi skemmt strengina og ljúki viðgerð þeirra að fullu næstu daga.
Áður en sambandið milli Hjaltlandseyja og Skotlands rofnaði hafði verið unnið tjón á neðansjávarstreng milli Hjaltlandseyja og Færeyja.
Á meðan unnið er að fullnaðarviðgerð hafa sérfræðingar í gervihnattartengingum verið sendir til Hjaltlandseyja til að tryggja varaleið sé hennar þörf.
Páll Vesturbú sem stjórnar grunnvirkjasviði Føroya Tele segir við BBC að strengurinn til Skotlands hafi ekki farið í sundur heldur hafi ljósleiðarar í honum orðið fyrir hnjaski skömmu eftir miðnætti fimmtudaginn 20. október.
„Við höfum ástæðu til að ætla að fiskiskip hafi valdið tjóni á strengnum. Í fyrri viku varð annað atvik og við teljum að þar hafi fiskiskip einnig átt hlut að máli,“ sagði Páll Vesturbú.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, sagði neyðarástand hafa skapast á eyjunum. Almannavarnaráð skosku ríkisstjórnarinnar kom saman til að ræða stöðuna og leggja á ráðin um aðstoð.
Sturgeon taldi að um óhapp væri að ræða, ekkert benti til annars en allir þættir málsins yrðu rannsakaðir til hlítar.
Um 230 km eru á milli Hjaltlandseyja (e. Shetland Isles) og Skotlands. Íbúar eyjanna eru um 23.000. Flug til þeirra eða ferjusiglingar rofnuðu ekki vegna atviksins.
Vandræði urðu á eyjunum vegna sambandsslitanna meðal annars vegna þess að rafræn greiðslukerfi rofnuðu og ekki var unnt að taka út reiðufé í hraðbönkum.
Laugardaginn 22. október bárust fréttir um að rússneskt rannsóknarskip, Akademik Boris Petrov, á leið frá Kaliningrad við Eystrasalt til stranda Brasilíu, hefði lagt lykkju á leið sína frá Skagerrak og siglt milli Hjaltlandseyja og Orkneyja fyrir norðan Skotland síðdegis föstudaginn 21. október í stað þess að fara um Ermarsund út á Atlantshaf. Hefði hollenskt herskip HNLMS Tromp fylgst með ferð rússneska skipsins.
Í fréttum var ekki talið að Rússar hefðu átt neinn hlut að skemmdum á strengjunum við Hjaltlandseyjar. Siglingu skips þeirra mætti frekar skoða sem „skýr skilaboð“ til Breta á tímum þegar athygli beinist mjög að þeim skaða sem kann að leiða af rofi á leiðslum og strengjum neðansjávar.