
Ástralska ríkisstjórnin krefst þess að kínversk stjórnvöld biðjist afsökunar eftir að háttsettur kínverskur embættismaður setti falsaða mynd á Twitter af áströlskum hermanni með blóðugan hníf á barka afgansks barns.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, boðaði til blaðamannafundar til að fordæma birtingu myndarinnar og sagði hana „ótrúlega andstyggilega“. Það yrði tafarlaust að afturkalla hana.
Fréttaskýrendur segja atvikið til marks um að samskipti Ástrala og Kínverja hríðversni.
Það var upplýsingafulltrúi kínverskra utanríkisráðuneytisins, Zhao Lijian, sem setti myndina á opinbera Twitter-síðu sína mánudaginn 30. nóvember að sögn Morrisons.
„Þetta er algjörlega fyrir neðan allar hellur og ekki unnt að réttlæta á neinn hátt,“ sagði Morrison. „Kínverska ríkisstjórnin ætti að hundskammast sín fyrir þessa færslu. Hún lítillækkar hana í augum heimsins.“
Yfirmaður ástralska hersins sagði föstudaginn 27. nóvember að brottrekstur kynni að bíða 13 liðsmanna sérsveita hersins eftir að óháð skýrsla birtist þar sem þeir eru sakaðir um ólöglegar aftökur í Afganistan.
„Það er ástralska ríkisstjórnin sem ætti að skammast sín fyrir að hermenn hennar drepi saklausa afganska borgara,“ sagði Hua Chunying fyrir hönd kínverska utanríkisráðuneytisins þegar hún var spurð um ummæli Morrisons.
Hún sagði á reglulegum blaðamannafundi í Peking mánudaginn 30. október að myndin sem starfsbróðir hennar hefði sett á netið sýndi „hneykslun“
almennings. Það væri úrlausnarefni fyrir Twitter og áströlsku ríkisstjórnina hvort myndin yrði fjarlægð.
Samskipti stjórnvalda Ástralíu og Kína hafa versnað stig af stigi síðan stjórn Ástralíu lagði til að alþjóðleg rannsóknarnefnd kannaði upptök kórónuveirunnar og heimsfarsóttarinnar.
Fyrr í nóvember lýsti Kínastjórn vonbrigðum vegna erlendra fjárfestinga Ástrala, þjóðaröryggis þeirra og stefnu í mannréttindamálum. Sögðu Kínverjar að Ástralir yrðu að breyta um stefnu til að stofna að nýju til tvíhliða samskipta við stærsta viðskiptaríki sitt.
Morrison sagði að í höfuðborgum landa um heim allan fylgdust menn með því hvernig kínversk stjórnvöld brygðust við spennunni í samskiptum sínum við Ástrali.
Kínverjar tilkynntu föstudaginn 27. nóvember að þeir mundu leggja allt að 212,1% toll á vín frá Ástralíu til að verjast undirboðum. Ástralir segja þetta pólitíska aðgerð, engin viðskiptaleg rök séu fyrir henni.