Home / Fréttir / Hitnar í kolunum í samskiptum Trumps og þingleiðtoga demókrata

Hitnar í kolunum í samskiptum Trumps og þingleiðtoga demókrata

Nancy Pelosi og Donald Trump heilsast við innsetningu hans í forsetaembættið, janúar 2017.
Nancy Pelosi og Donald Trump heilsast við innsetningu hans í forsetaembættið, janúar 2017.

 

Til harðra deilna kom milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og þingleiðtoga Demókrata, Nancy Pelosi úr fulltrúadeildinni og Chuck Schumer úr öldungadeildinni, miðvikudaginn 22. maí. Snúast deilurnar öðrum þræði um hvort stefna eigi forsetanum fyrir ríkisrétt.

Trump batt á skjótan hátt enda á fund sem hann hafði boðið Pelosi og Schumer að sækja í Hvíta húsinu til að ræða fjárveitingar til innviða og mannvirkjagerðar.

Rétt fyrir fundinn sakaði Nancy Pelosi (79 ára) forsetann um að gert ráðstafanir til að „leyna upplýsingum“. Framganga hans kynni að vera saknæm og kalla á aðgerðir af hálfu þingsins í þágu réttvísinnar.

Að Pelosi skyldi nefna að hugsanlega yrðu hafin málaferli gegn forsetanum af hálfu þingsins vöktu ekki síst athygli vegna þess að allt tal í þá veru nýtur lítilla vinsælda meðal almennings, megi marka skoðanakannanir. Harka hefur hins vegar færst í samskipti þingmanna og forsetans í þessari viku eftir að fulltrúar stjórnar Trumps neituðu að eiga samstarf við þingmenn vegna rannsókna þeirra. Skömmu fyrir heimsókn sína í Hvíta húsið hafði Nancy Pelosi kallað samstarfsmenn sína saman til að ræða til hvaða ráða skyldi gripið gagnvart forsetanum.

„Í gærkvöldi heyrði ég að ætlunin hefði verið að hittast fyrir þennan fund okkar til að ræða um orðið sem hefst á bókstafnum „i“ . Er það svo?“ spurði Donald Trump (72 ára) hneykslaður. Með því að nefna bókstafinn „i“ vísaði hann til enska orðsins impeachment, það er ákæru. Forsetinn var reiður þegar hann kom of seint á fundinn með þingleiðtogunum. Án þess að heilsa þeim með handabandi eða að setjast sakaði hann Nancy Pelosi um að hafa sagt „hræðilega“ hluti. Síðan hvarf hann á braut, segja heimildarmenn úr röðum demókrata.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …