
Bandaríska haffræði- og loftslagsstofnunin (National Oceanographic and Atmospheric Administration, NOAA) sendi þriðjudaginn 11. desember frá sér skýrslu sem sýnir að árið 2018 er annað hlýjasta árið sem mælst hefur á norðurskautinu.
„Lofthiti á norðurskautinu hefur undanfarin fimm ár verið hærri en öll ár frá árinu 1900,“ segir í árlegri skýrslu NOAA um norðuskautið árið 2018. Þar segir að aðeins á árinu 2016 hafi hitinn orðið hærri á þessum slóðum.
Einnig kemur fram að hitinn á norðurskautinu eykst tvöfalt hraðar en annars staðar á jörðinni. Þetta virðist breyta gerð og styrk háloftastrauma sem hafa áhrif á norðurhveli jarðar. Þetta leiði til dæmis til mikils kulda á svæði sunnan við heimskautsbaug.
Í skýrslunni er vakið máls á hörðum vetrarstormum í austurhluta Bandaríkjanna árið 2018. Þá er einnig nefndur ofsakuldi í Evrópu í mars 2018.