Home / Fréttir / Hillary segir Trump óhæfan – Trump vill Hillary í fangelsi

Hillary segir Trump óhæfan – Trump vill Hillary í fangelsi

 

Hillary Clinton gagnrýnir Donald Trump
Hillary Clinton gagnrýnir Donald Trump

Hillary Clitnon, væntanlegur forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, gagnrýndi harkalega stefnu og geðslag Donalds Trumps, væntanlegs keppinautar hennar úr röðum repúblíkana, í ræðu í San Diego í Kaliforníu fimmtudaginn 2. júní. Trump hefði alls enga burði til að gegna embætti Bandaríkjaforseta. Hún minnti á að forsetinn væri æðsti yfirmaður alls bandaríska heraflans. Trump væri „ekki fær um“ að takast á við það verkefni. Það yrðu „söguleg mistök“ að kjósa hann sem forseta. Hún lýsti honum sem ósvífnum, barnalegum og óupplýstum amatör sem reyndi fyrir sér í leik um alþjóðastjórnmál.

Donald Trump svaraði  síðar þetta sama kvöld í ræðu í San Jose í Kaliforníu. Hann sagði að Hillary Clinton ætti heima í fangelsi. „Ég segi ykkur aðeins þetta: Hillary Clinton verður að fara í steininn.“ Trump sagði hana hafa brotið lög með meðferð tölvubréfa þegar hún var utanríkisráðherra.

Í tíð sinni sem utanríkisráðherra notaði Hillary Clinton einka-netþjón við tölvusamskipti sín. Meðferð hennar á tölvubréfum hefur sætt opinberri rannsókn. Niðurstaðan var kynnt miðvikudaginn 1. júní og þar segir að hún hafi ekki haft neina heimild ráðuneytisins til að nota einka-netþjóninn.

Í ræðu sinni í San Diego sagði Hillary Clinton um Trump:

„Þetta er ekki maður sem nokkru sinni ætti að hafa aðgang að lykilorðinu fyrir beitingu kjarnorkuvopna. Það er ekki erfitt að ímynda sér að Donald Trump leiði okkur út í styrjöld aðeins vegna þess að einhver hafi farið í ofurviðkvæmar taugar hans.“

Hillary Clinton uppskar mikla hrifningu og hlátur fundarmanna þegar hún tætti yfirlýsingar Trumps um utanríkismál í sundur. Hún sagði þær „ekki einu sinni lýsa hugmyndum heldur [væru þær] samsafn af fáranlegum gífuryrðum, persónulegum illdeilum og hreinum lygum“.

Hún sagðist ímynda sér að Trump væri að „semja nöturleg Twitter-ummæli“ um sig á meðan hún flytti ræðu sína. Þar hafði hún rétt fyrir sér því að Trump setti þetta á Twitter: „Léleg frammistaða hjá óheiðarlegu Hillary Clinton!“ Einnig þetta: „Hún er varla læs á textavélina! Ekki er hún beint forsetaleg.“

Hillary Clinton nýtti sér hve Trump er tamt að nota Twitter þegar hún sagði:

„Ímyndið ykkur að Donald Trump sitji í stjórnstöðinni við töku ákvarðana upp á líf og dauða fyrir Bandaríkin [hér hrópuðu fundarmenn: Nei]. Ímyndið ykkur að hann hafi ekki aðeins Twitter við höndina til að svala reiði sinni heldur allan kjarnorkuherafla Bandaríkjanna.“

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …