Home / Fréttir / Herútkall Rússa ögrar Úkraínu

Herútkall Rússa ögrar Úkraínu

Rússneskir skriðdrekar við landamæri Úkraínu.
Rússneskir skriðdrekar við landamæri Úkraínu.

Rússnesk stjórnvöld auka herafla sinn við austurhluta Úkraínu og segja það gert til að verjast stjórnarher landsins sem hafi styrkt stöðu sína á svæðinu. Kremlverjar segjast óttast að borgarastríð í Úkraínu kunni að berast til Rússlands, Í Úkraínu velta menn fyrir sér hvort Rússar ætli að ráðast að nýju inn í landið. Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, segir að um „einhliða ögrun Rússa“ sé að ræða.

Rússneskir embættismenn fullyrtu föstudaginn 9. apríl að herútkall við landamæri Úkraínu og á Krímskaga, sem Rússar innlimuðu fyrir sjö árum, mætti rekja til ögrana frá stjórnvöldum í Kiev.

Talsmenn forseta og utanríkisráðuneytis Rússa lýstu ótta við að borgarastríð eða hugsanlega útrýmingarherferð gegn rússnesku-mælandi minnihlutanum í Úkraínu. Þar að auki hefði stjórnin í Kiev gripið til „ögrandi aðgerða“. Vegna alls þessa hefði rússneski herinn verið sendur á vettvang. Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, áréttaði jafnframt að Rússar gætu hagað skipan herafla síns á þann sem þeir kysu innan eigin landamæra.

Angela Merkel Þýskalandskanslari ræddi við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í síma fimmtudaginn 8. apríl og hvatti til þess að forsetinn minnkaði spennu gagnvart Úkraínu með því kalla hersveitir sem sendar hefðu verið á vettvang á brott.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddi við utanríkisráðherra Þýskalands og Frakklands, Heiko Maas og Jean-Yves Le Drian, föstudaginn 9. apríl.

Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði að í samtali sínu við Le Drian hefði Blinken rætt að Rússar yrðu að hætta hættulegu og ábyrgðarlausu tali sínu, herútkalli sínu á Krímskaga og við landamæri Úkraínu. Í símtalinu við Maas hefði Blinken áréttað mikilvægi þess að styðja Úkraínumenn gegn einhliða ögrunum Rússa.

Bandaríkjastjórn tilkynnti utanríkisráðuneyti Tyrklands að í næstu viku sigli tvö bandarísk herskip um Sæviðarsund (Bosporus) inn í Svartahaf. Skipin koma á vettvang 14.-15. apríl og verða við störf á Svartahafi til 4.-5. maí.

Í Montreux-samþykktinni eru ferðir herskipa heimilaðar um sundin frá Miðjarðarhafi inn á Svartahaf enda taki leiðangurinn innan við 21 dag. Vladimir Pútin hvatti Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta föstudaginn 9. apríl til að standa vörð um ákvæði samþykktarinnar. Þessi hvatning snerti ekki beint þessa för bandarísku herskipanna heldur áform Tyrkja um að grafa skipaskurð við hliðina á Sæviðarsundi þar sem skipaumferð er mjög mikil. Skurðurinn, Istanbúl-skurðurinn, félli ekki undir Montreux-samþykktina.

Bandarísk herskip sigla reglulega inn á Svartahaf. Þótt Rússum kunni að vera skapraunað með ferðum þeirra er reiði þeirra enn meiri vegna ítrekaðra óska Úkraínumanna um aðild að NATO.

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði föstudaginn 9. apríl að aðild Úkraínu að NATO yrði ekki aðeins til stigmagna hættuástandið í suðaustri til mikilla muna heldur kynni það að hafa óbætanlegar afleiðingar fyrir Úkraínu sem ríki.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …