Home / Fréttir / Herútkall Pútins og kjarnorkuhótun

Herútkall Pútins og kjarnorkuhótun

Valdimir Pútin ávarpar Rússa 21. september 2022.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti gaf miðvikudaginn 21. september út fyrirmæli um að kalla út 300.000 varaliða í rússneska herinn. Sýnir ákvörðun forsetans að herinn stendur höllum fæti í Úkraínu og getur ekki varist sókn Úkraínumanna án þessa takmarkaða útkalls sem þingið í Moskvu heimilaði með hraði þriðjudaginn 20. september.

Í ræðu sinni nefndi Pútin einnig kjarnavopn til sögunnar. Hann sagðist ekki „fara með fleipur“ þegar hann talaði um þau enda steðjaði ógn úr vestri að Rússum:

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði ræðu Pútin sýna að forsetinn og stjórn hans væru á barmi örvæntingar vegna ófaranna í Úkraínu.

Herútkallið boðaði Pútin í sjónvarpsávarpi að morgni 21. september en hann hefur ekki ávarpað þjóðina á sama hátt síðan hann boðaði innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022.

Að venju færði Pútin boðskap sinn í þann búning að Rússum væri nauðsynlegt að verjast NATO og Vestrinu, óvinir Rússa þar bæru ábyrgð á að til þessa úrræðis yrði að grípa, gegn óvinum sem notuðu Úkraínumenn sem „fallbyssufóður“ til að ráðast á Rússa.

„Þeir breyta algjöru Rússhatri í vopn“ og „þeir ætla að eyðileggja land okkar,“ sagði Pútin. Sakaði hann Vestrið um að ætla að brjóta Rússland niður í smærri einingar eins og gert hefði verið við Sovétríkin á sínum tíma.

Þegar hann ræddi herkvaðninguna lagði Pútin áherslu á að að hún væri „takmörkuð“. Hún sneri aðeins að varaliði hersins:

„Við ætlum aðeins að kveðja þá til vopna sem eru nú í varaliðinu. Þá sem búa yfir reynslu og hafa verið í hernum og þjónað þar og hafa nauðsynlega hæfni og reynslu. Þeir verða kvaddir til vopna og sendir til eininga sinna þar sem þeir hljóta frekari þjálfun.“

Útkallið tekur gildi í dag, 21. september. Sergej Shoigu varnarmálaráðherra segir að það nái til 300.000 varaliða. Sé talan rétt þýðir það að Rússar ætla að meira en tvöfalda heraflann sem þeir hafa nú sent til vígvallanna í Úkraínu.

Samhliða útkallinu verður hergagnaframleiðsla stóraukin í Rússlandi. Forsetinn sagði að ríkisstjórnin mundi tryggja fé til að það tækist.

Í ræðu sinni nefndi Pútin einnig kjarnavopn til sögunnar. Hann sagðist ekki „fara með fleipur“ þegar hann talaði um þau enda steðjaði ógn úr vestri að Rússum:

„Þeir sem halda að þeir geti beitt okkur þrýstingi með kjarnavopnum skulu átta sig á að ríkjandi vindar geta blásið í fangið á þeim.“

Í lok ræðu sinnar áréttaði Pútin enn frekar en áður að Rússum væri ógnað:

„Þeir vilja binda Rússa í þrældóm.“

„Ég treysti á stuðning ykkar!“

 

Macron og Scholz í New York

 

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarapaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York þriðjudaginn 20. september og sagði að þeir sem nú þegðu um framgöngu Rússa – hvort heldur þvert á eigin vilja eða ekki – þjónuðu hagsmunum heimsvaldasinna.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari flutti einnig ræðu á allsherjarþinginu og lýsti aðgerðum Pútins á þann veg að um „augljósa heimsvaldastefnu“ væri að ræða og áform hans um að efna til „gervi-þjóðaratkvæðagreiðslna“ í hernumdum héruðum Úkraínu væru aðeins til marks um „nýja stigmögnun“.

Vildu menn að stríði Pútins lyki gæti þeim ekki staðið á sama um hver endalokin yrðu, sagði Scholz á Twitter 21. september. „Þess vegna munum við ekki fallast á frið að fyrirmælum Rússa – og við munum ekki heldur samþykkja neina niðurstöðu í gervi-þjóðaratkvæðagreiðslu.“

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …