Home / Fréttir / Hertar aðgerðir að nýju gegn COVID-19 í Evrópu

Hertar aðgerðir að nýju gegn COVID-19 í Evrópu

54310912_354

Um alla Evrópu eru boðaðar hertar aðgerðir til að bregðast við auknum þunga COVID-19-faraldursins.

Mánudaginn 27. júlí fór fjöldi smitaðra yfir 300.000 í Bretlandi og í Þýskalandi bárust þau boð frá kanslaraskrifstofunni að stemma yrði stigu við faraldrinum með því snúast til varnar og minnka daglega fjölgun smita sem nú er rúmlega 800 aftur niður fyrir 500.

Tedros Adganom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sagði 27. júlí að fórnarlömbum faraldursins fjölgi áfram, fjöldinn hafi tvöfaldast undanfarnar sex vikur. Nú hafi tæplega 16 milljón tilfelli verið skráð hjá WHO og rúmlega 640.000 hafi dáið um heim allan.

„COVID-19 hefur breytt heiminum. Faraldurinn hefur sameinað einstaklinga, samfélög og þjóðir – og sundrað þeim.“

Í Belgíu boðaði forsætisráðherrann 27. júlí róttækar aðgerðir til að minnka samskipti einstaklinga til að koma í veg fyrir að innleiða þyrfti algjört samskiptabann að nýju og gefa fyrirmæli um heimadvöl.

Frá með miðvikudegi 29. júlí verður samneyti innan fjölskyldu heimilað en utan hennar aðeins við fimm sömu einstaklingana í næstu fjórar viku. Nú má fólk í Belgíu hafa samband vip 15 ólíka einstaklinga utan fjölskyldu. Þetta á ekki við um börn yngri en 12 ára.

Þá mega ekki fleiri en 100 manns koma saman innan dyra og 200 utan dyra.

Tilfellum fækkaði ört í Belgíu um tíma en þeim hefur síðan fjölgað hratt að nýju undanfarnar þrjár vikur.

Belgum og Frökkum er ráðlagt að halda sig frá Barcelona á Spáni í sumarleyfinu.

Franska ríkisstjórnin hvatti mánudaginn 27. júlí fyrirtæki til að koma sér upp tíu vikna birgðum af grímum sem grípa mætti til í annarri bylgju faraldursins, kæmi hann. Frá og með 20. júlí er öllum í Frakklandi skylt að vera með grímur í verslunum og á mannamótum innan húss. Til þessa hefur Frökkum tekist að halda þannig á málum að ekki hafa verið gefin ný fyrirmæli um að takmarka ferðafrelsi við brýn erindi.

Vegna nýrra smit-bylgju á Spáni hafa bresk yfirvöld gefið fyrirmæli um að allir ferðamenn sem koma þaðan skuli fara í 14 daga sóttkví.

Spænskir ferðafrömuðir hvetja þá sem ætla að koma til landsins að láta taka af sér sýni í heimalandi sínu við brottför þaðan og síðan aftur á Spáni áður en haldið sé heim. Þetta minnki þörfina á sóttkví við heimkomu.

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, vill skylda þá sem koma frá hættusvæðum vegna faraldursins til að fara í sýnatöku.

Forsætisráðherra Bæjaralands, Markus Söder, vill að ferðamenn sem koma frá útlöndum fari sér að kostnaðarlausu í COVID-19-sýnatöku á þýskum flugvöllum. Þeim sem ferðast með lestum sé í sjálfs vald sett að láta taka úr sér sýni en aðstaða til þess verði í brautarstöðvunum í München og Nürnberg. Ökumenn og farþegar ökutækja eigi einnig að geta látið taka af sér sýni á landamærum.

Hann vill einnig að tekin séu sýni af öllu verkafólki sem ráðið sé tímabundið til uppskerustarfa. Sunnudaginn 26. júlí voru 500 manns sett í sóttkví á stórbýli í Bæjaralandi eftir að 174 verkamenn mældust jákvæðir við sýnatöku. Hefur girðing verið reist umhverfis býlið og gæta verðir þess að enginn samgangur sé við fólk utan hennar.

Á Grikklandi var létt á hömlum vegna faraldursins fyrir nokkrum vikum og tóku ferðamenn að streyma til landsins. Þar er þó skylt að ganga með grímur í kirkjum og verslunum. Undanfarið hafa sumarsmit aukist í borgum landsins.

Smitum hefur fjölgað undanfarið í Austurríki og þar er nú skylt að nýju að ganga með grímur í verslunum, pósthúsum og bönkum.

Í héraðinu Campania í suðurhluta Ítalíu er hver sá sem ekki ber grímu sektaður um 1.000 evrur. Virði stjórnendur fyrirtækja ekki reglur má loka starfsemi þeirra í fimm til 30 daga.

Tilfelli eru um 242.000 á Ítalíu og rúmlega 35.000 hafa látist úr veikinni.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …