Home / Fréttir / Herskylda snar þáttur í finnsku þjóðlífi

Herskylda snar þáttur í finnsku þjóðlífi

Nýliðar í hernum velja sér búnað.
Nýliðar í hernum velja sér búnað.

Um 12.000 nýliðar hófu þjónustu í finnska hernum mánudaginn 6. janúar. Langflestir þeirra, 10.000, fara í landherinn. Hinir skiptast á milli flughers, flota og landamæravörslu.

Í Finnlandi er herskylda fyrir flesta unga karlmenn. Þeim ber að sinna henni í rúmlega fimm til rúmlega 11 mánuði, alls 165, 255 eða 347 daga eftir því hvers eðlis þjálfunin er.

Velji menn borgaralega þjónustu ber að sinna henni í jafnlangan tíma og lengstu herþjónustunni.

Árið 2018 hófu tæplega 24.000 að gegna herþjónustu, rétt undir 1.000 af þeim voru konur sem hafa frá árinu 1995 heimild til að gerast sjálfboðaliðar í hernum. Í ár ætlar finnski herinn að gera tilraun með blandaða skála karla og kvenna.

Um 15% þeirra sem skrá sig í herinn segja skilið við hann áður en skyldutíma þeirra lýkur.

Herskylda er í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Eistlandi en almennt ekki annars í Evrópulöndum.

Hverjum finnskum karlmanni er skylt að lögum að sinna kvaðningu í herinn árið sem hann verður 18 ára. Þeir sem teljast ekki færir um að gegna herþjónustu eru undanþegnir henni á friðartímum. Einstaklingi er heimilt að gegna þjónustunni síðar hafi hann gilda ástæðu til frestunar, nær þá herskyldan allt til 60 ára aldurs. Finnar búsettir erlendis sem sinna ekki kvaðningu í herinn kunna að verða sviptir finnskum vegabréfum sínum eftir að þeir verða 28 ára.

Að lokinni herþjónustu verða þeir sem henni gegndu í varaliði hersins og kunna að verða kallaðir til endurþjálfunar eða til að verja land sitt á átakatíma allt þar til þeir verða 50 ára.

Heimild: YLE

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …