
Martin E. Dempsey, hershöfðingi og formaður herráðs Bandaríkjanna, kynnti miðvikudaginn 1. júlí nýja National Military Strategy – hernaðarstefnu Bandaríkjanna – og sagði við það tækifæri að hann gæti ekki sagt nákvæmlega fyrir um hvaðan næsta ógn við öryggi Bandaríkjanna eða hagsmuni þeirra kynni að koma. Atburðarásin kynni hins vegar að vera hraðari en áður hefði þekkst og því yrði heraflinn að vera vel á verði.
Stefnan og skýrslan um hana hefur að geyma áætlun um hvernig herinn muni beita valdi sínu til að gæta og halda fram öryggi og hagsmunum Bandaríkjanna.
„Hnattvæðingin, tækniframfarir og lýðfræðileg umskipti stuðla að örum breytingum á sama tíma og ríki og svæðisbundin samtök ögra röð og reglu,“ sagði Dempsey. „Tekið er mið af þessum kröftum í þessari stefnu og markmið okkar er að tryggja að herafli okkar lúti bestu stjórn, sé best þjálfaði og tækjum búni her á jarðarkringlunni.“
National Military Strategy, hernaðarstefnan, siglir í kjölfar National Security Strategy 2015, öryggisstefnunni frá febrúar 2015, og einnig Quadrennial Defense Review 2014, fjögurra ára endurskoðunarskýrslu varnarmála frá árinu 2014.
Í hernaðarstefnunni kemur fram að beiting hervalds gegn hefðbundinni ógn af hálfu óvinveitts ríkis sé allt annars eðlis en beiting þessa valds gegn annars konar óvini. Þá er einnig gert ráð fyrir að komi til átaka verði þau langvinn í stað snarpra átaka.
Þá segir að Bandaríkjaher verði að búa sig undir átök við „umbreytt ríki“ eins og Rússland sem ógni alþjóðareglum og einnig við ofbeldisfulla öfgamenn eins og svonefnt Íslamskt ríki.
Í skýrslunni er bent á að Rússar leggi sitt af mörkum til að sporna við útbreiðslu fíkniefna og gegn hryðjuverkum. Hins vegar hiki þeir ekki við að beita valdi til að ná markmiðum sínum. „Þeir hafa einnig hvað eftir annað sýnt að þeir virða ekki fullveldi nágranna sinna,“ segir í skýrslunni. „Hernaðaraðgerðir Rússa grafa beint undan svæðisbundnu öryggi og þeir beita einnig öðrum fyrir sig.“
Í skýrslunni kemur fram að Kínverjar geti ógnað Bandaríkjunum. Kína sé vaxandi stórveldi og Kínverjar eru hvattir til samstarfs „í þágu aukins alþjóðaöryggis“. Á hinn bóginn sé ástæða til að hafa áhyggjur af framgöngu Kínverja í Suður-Kínahafi.