Home / Fréttir / Herör gegn gyðingahatri í Frakklandi

Herör gegn gyðingahatri í Frakklandi

Minningarskjöldur um Mireille Knoll, 85 ára gyðingakonu,  sem stungin var 11 sinnum.
Minningarskjöldur um Mireille Knoll, 85 ára gyðingakonu, sem stungin var 11 sinnum.

 

Rúmlega 300 þjóðþekktir Frakkar, þar á meðal Nicolas Sarkozy, fyrrv. forseti, og leikarinn Gérard Depardieu hafa skrifað undir mótmælaskjal gegn „nýju gyðingahatri“ vegna „íslamskrar öfgahyggju“ í Frakklandi.

Alls býr rúm hálf milljón gyðinga í Frakklandi og er það fjölmennasti hópur þeirra í Evrópu. Fækkað hefur í honum undanfarna tvo áratugi vegna brottflutnings til Ísraels. Má að nokkru rekja hann til magnaðs gyðingahaturs í hverfum þar sem innflytjendur mynda meirihluta íbúa.

„Við krefjumst þess að baráttan gegn þeirri aðför að lýðræðinu sem felst í gyðingahatri verði að þjóðarátaki áður en það er of seint. Áður en Frakkland er ekki lengur Frakkland,“ segir í skjalinu sem birtist sunnudaginn 22. apríl í Le Figaro.

Þar er einnig mótmælt því sem kallað er „hljóðlát þjóðernishreinsun“ í krafti aukinnar íslamskrar öfgahyggju, einkum í verkamannahverfum. Þá eru fjölmiðlar einnig sakaðir um þöggun.

„Á tiltölulega skömmum tíma hafa 11 gyðingar verið teknir af lífi – og sumir pyntaðir – af íslömskum öfgamönnum vegna þess eins að þeir eru gyðingar,“ segir í yfirlýsingunni.

Síðasta árásin var í mars 2018 þegar tveir illvirkjar stungu Mireille Knoll, 85 ára gyðingakonu, 11 sinnum áður en þeir báru eld að henni. Farið var með málið sem hatursmál í garð gyðinga. Reiðibylgja fór um allt Frakkland og 30.000 manns tóku þátt í minngargöngu um Knoll.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti fordæmdi þetta „hryllilega“ morð og áréttaði baráttu sína gegn gyðingahatri.

Í skjalinu er litið aftur til ársins 2006 þegar tíunduð eru morðin á gyðingum. Þar er meðal annars minnt á atburðinn 2012 þegar íslamskur byssumaður, Mohammed Merah, drap þrjú skólabörn og kennara í gyðingaskóla í Toulouse í suðvestur Frakklandi.

Þremur árum síðar myrti vitorðsmaður með þeim sem réðust inn í ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo fjóra í kjörbúð gyðinga í París.

Í apríl 2017 kastaði nágranni gyðingakonu á sjötugsaldri henni út um glugga á íbúð hennar í París og hrópaði Allahu Akbar (Guð er mestur).

„Í Frakklandi eru 25 sinnum meiri líkur á að ráðist sé á gyðinga en múslimska samborgara þeirra,“ segir í yfirlýsingunni í Le Figaro. Þar er einnig bent á að um 50.000 gyðingar hafi „neyðst til að flytjast búferlum vegna þess að þeir nutu ekki lengur öryggis í ákveðnum borgum og vegna þess að börn þeirra gátu ekki lengur sótt skóla“.

 

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …