Home / Fréttir / Hernaðarspenna vex á Barentshafi og Eystrasalti

Hernaðarspenna vex á Barentshafi og Eystrasalti

Kortið sýnir flugleið bandarískrar njósnavélar yfir Barentshafi 26. ágúst 2020.
Kortið sýnir flugleið bandarískrar njósnavélar yfir Barentshafi 26. ágúst 2020.

Rússneskir stjórnendur hafna í vesturhluta Norður-Íshafs gáfu út fyrirmæli um bann við siglingum í þessari viku á hluta Barentshafs og Karahafs, þar yrði efnt yrði til æfinga með skotflaugar á dögunum 25. til 28. ágúst. Þá voru siglingar bannaðar á öðru stóru svæði án skýringa.

Þessar æfingar Rússa drógu að sér athygli Bandaríkjahers sem sendi miðvikudaginn 26. ágúst njósnaflugvél af RC-135 Combat-gerð á vettvang og flaug hún að minnsta kosti fjóra eða fimm hringi yfir hafsvæðið frá lögsögu Rússa að Noregi.

Í flugvélinni er búnaður sem safnar tæknilegum upplýsingum til greiningar fyrir sérfræðinga. Venjulega er flugvélin í Offutt-flugherstöðinni í Nebraska-ríki í Bandaríkin. Leiðangur hennar 26. ágúst hófst hins vegar í bresku flugherstöðinni í Mildenhall, fyrir norðan London.

Á vefsíðunni Barents Observer er haft eftir fulltrúa norska hersins að bandaríska vélin hafi aldrei flogið inn í norska lofthelgi á leið sinni í átt að Barentshafi.

Flugvélum frá NATO-ríkjum er bannað að hefja sig til flugs frá norskum flugvöllum séu þær á leið til verkefna yfir austurhluta Barentshafs. Það er þó ekki óalgengt að bandarískar hervélar séu á lofti undan Kólaskaga í Rússlandi.

Spenna í Skandinavíu og á Eystrasalti

Thomas Nilsen, ritstjóri Barents Observer, segir 26. ágúst að á sama tíma og Bandaríkjaher sendi njósnavél sína í áttina að mikilvægum stöðvum rússneska Norðurflotans gæti aukinnar spennu sunnar á Skandinavíu-skaga og á Eystrasalti.

Svíar hertu á viðbúnaði sínum á Eystrasalti og Gotlandi mánudaginn 24. ágúst vegna alhliða hernaðarlegra aðgerða Rússa. Hafa vestrænir herir ekki séð jafnmikil hernaðarumsvif Rússa á þessum slóðum síðan í kalda stríðinu að sögn aðgerðarstjóra sænska hersins, Jans Thörnqvists.

Rússnesk landgönguskip sigldu nálægt Gotlandi og Svíar svöruðu með að senda herskip, hermenn og hergögn til eyjarinnar sem er hernaðarlega mikilvæg vegna legu sinnar á Eystrasalti.

Í fyrsta sinn frá því í kalda stríðinu hefur her Hvíta-Rússlands verið virkjaður á hæsta stig. Einræðisherrann Alexander Lukasjenko segir að landinu sé ógnað úr vestri, það er frá NATO-löndum Evrópusambandsins.

Rússneski herinn sagði að mánudaginn 24. ágúst hefði Su-27 orrustuþota úr Eystrasaltsflughernum verið hindruð á ferð sinni til að fljúga fyrir njósnavélar frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Svíþjóð yfir Eystrasalti.

Föstudaginn 21. ágúst kom bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS Seawolf skamma stund úr kafi fyrir utan Tromsø í Norður-Noregi til að skipta um menn í áhöfn og fyrr þann sama dag flugu sex langdrægar, bandarískar B-52-sprengjuvélar yfir Noregshaf ásamt norskum F-16-orrustuþotum.

 

 

 

 

 

 

ADVERTISEMENT

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …