Home / Fréttir / Hernaðarframkvæmdir Rússa ógna heimsminjum við Norður-Íshaf

Hernaðarframkvæmdir Rússa ógna heimsminjum við Norður-Íshaf

Rússnesk herstöð við Norður-Íshaf.
Rússnesk herstöð við Norður-Íshaf.

Á 40. fundi heimsminjanefndar UNESCO sem haldinn var á dögunum í Istanbul í Tyrklandi var lýst áhyggjum yfir að hervæðing Rússa við Norður-Íshaf kynni að raska lífríki á svæðinu.

Árið 2004 var ákveðið að skrá rússnesku heimskautaeyjuna Wrangel á heimsminjaskrá UNESCO vegna mikils líffræðilegs fjölbreytileika þar.

Í ályktun heimsminjanefndarinnar á fundinum í Istanbul segir:

„Stöðug mannvirkjagerð og umferð manna í tengslum við hana á Wrangel-eyju getur hugsanlega ógnað viðkvæmu vistkerfi heimskautasvæðisins.“

Verði ekkert að gert kann eyjan að verða sett á válista yfir heimsminjar og síðan skráð af listanum yfir þær. Verður málið tekið fyrir á næsta fundi nefndarinnar segir í frétt rússnesku fréttastofunnar RIA Novosti.

Á vefsíðunni The Independent Barents Observer segir að rússneska varnarmálaráðuneytið standi nú að stórframkvæmdum á Wrangel við endurgerð og stækkun herstöðvar þar. Á árinu 2015 hafi 9.500 tonn af byggingarefni og tækjum verðir flutt til eyjarinnar.

Herstöðin á Wrangel-eyju er ein af mörgum sem Rússar hafa í smíðum við Norður-Íshaf.  Unnið er að gerð svipaðra stöðva á Franz Josef Landi,  Novaja Zemlja, Severnaja Zemlja, Nýju Síberíu-eyju og Schmidt-höfða.

Við skráningu Wrangel-eyju á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 var tekið fram að þar mætti finna fjölbreyttustu líffræðilegu fjölbreytni á fjarlægu heimskautasvæði. Á Chukchi-hafi milli Síberíu og Alaska væri mesta byggð sjávarfugla á heimskautaslóðum og þarna væri að finna nyrstu varpstaði meira en 100 farfuglategunda.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …