Home / Fréttir / Hermenn á götum London – reiði vegna leka Bandaríkjamanna

Hermenn á götum London – reiði vegna leka Bandaríkjamanna

 

Hermenn á varðgöngu við breska þingið.
Hermenn á varðgöngu við breska þingið.

Breska lögreglan óttast að Salman Abedi, 22 ára, af líbískum ættum, fæddur í Bretlandi, sem sprengdi sig í loft upp að kvöldi mánudags 22. maí í anddyri Manchester Arena sem hýsir 21.000 manns, hafi verið einn af hópi öfgahyggjumanna úr Daesh-hryðjuverkasamtökunum.

Salman Abedi var nýlega þrjár vikur í Líbíu og sneri til baka til Bretlands fyrir skömmu. Óttast er að sprengjugerðamaðurinn eða mennirnir gangi enn lausir. Bróðir Abedis er í Líbíu um þessar mundir og hefur verið handtekinn. Þá hefur Ramadan, faðir Salmans, einnig verið handtekinn í Líbíu.

Tónleikum var að ljúka í Manchester Arena þegar Abedi sprengdi sig. Alls týndu 22 manns lífi, í hópi látinna og særðra eru mörg ungmenni. Aðdáendur bandarísku söngkonunnar Ariana Grande sem kom fram þetta kvöld eru flestir ungir að árum.

Theresa May er fyrsti breski forsætisráðherrann sem ákveður að 5.000 hermenn, gráir fyrir járnum, skuli taka sér varðstöðu við mikilvæga staði í Bretlandi. Hún ákvað að hrinda í framkvæmd nýrri áætlun um viðbrögð fyrir meiriháttar hyðjuverkaógn.

Í The Telegraph segir að með því að ákveða þetta fari May aðra leið en flokksbróðir hennar og forveri, David Cameron, sem hafi verið tregur til að beita þessu umdeilda valdi.

Um að ræða áætlun sem ber heitið Operation Temperer og felur í sér að þúsundir hermanna eru sendir út á meðal almennings á götum úti. Áætlunin var gerð árið 2015 og hafði verið farið með hana sem ríkisleyndarmál þar til henni var af slysni lekið til dagblaðs.

Embættismenn breska stjórnarráðsins geymdu áætlunina í trúnaðarhirslum sínum vegna þess að efni hennar var talið of viðkvæmt. David Cameron óttaðist að yrði áætlunin virkjuð yrði ástandið borið saman við það sem gerðist áður fyrr á Norður-Írlandi þegar breskir hermenn sinntu árum saman eftirliti á götum úti. Hann óttaðist einnig að talið yrði að ríkisstjórnin hefði misst stjórn á öryggismálum og beitti sér í krafti herlaga.

Tony Blair, forsætisráðherra Verkamannaflokksins, er eini breski forsætisráðherrann á síðari tímum sem hefur beitt herafla í Bretlandi utan N-Írlands vegna hryðjuverkaógnar. Árið 2003 sendi hann skriðdreka og 450 hermenn til að verja flugvelli eftir að viðvaranir bárust um reynt yrði að granda flugvél á lofti.

Blair var harðlega gagnrýndur fyrir að vekja óþarfan ótta og herforingjar hafa síðan lagst gegn beitingu herafla því að erfitt yrði að kalla hermennina til baka án þess að lækka hættustigið vegna hryðjuverkaógninnar.

Theresa May tilkynnti að lögreglan hefði óskað eftir aðstoð hersins og Michael Fallon varnarmálaráðherra varð við ósk hennar. Nú hefur Operation Temperer því verið virkjuð í fyrsta sinn.

Forsætisráðherrann sagði:

„Í þessu felst að í stað vopnaðra lögreglumanna sem standa vörð við lykilstaði koma liðsmenn hersins, þar með er unnt að senda töluvert fleiri vopnaða lögreglumenn til eftirlits á mikilvægum stöðum.

Þá kunna hermenn einnig að verða við gæslu við ýmsa atburði eins og tónleika og kappleiki til aðstoðar lögreglunni við að tryggja almannaöryggi.  Hermennirnir verða alls staðar undir stjórn lögregluforingja.

Yfirmenn innan lögreglunnar ákveða hvernig störfum hermanna og vopnaðra lögreglumanna verður háttað.“

Amber Rudd, innanríkisráðherra Breta, hefur gagnrýnt bandarískar öryggisstofnanir fyrir að leka upplýsingum vegna hryðjuverksins í Manchester að kvöldi mánudagsins 22. maí.

Rudd lýsti miðvikudaginn 24. maí þessum lekum sem „truflandi“ og Bretar hefðu hvatt nána samstarfsmenn sína í Bandaríkjunum til að hætta að skýra frá hlutum sem breska lögreglan vildi halda leyndum.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …